136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að hann varpaði fram spurningu um hvað fælist í 2. gr. frumvarpsins eins og það var lagt hér fyrir. En þar segir með leyfi forseta, í 2. mgr.:

„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir.“

Af því mér fannst hv. þingmaður ekki vera alveg með á nótunum hvað hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar áhrærir langar mig til þess að segja honum í einföldu máli að það sem þarna stendur, að nýta allar náttúruauðlindir á grundvelli sjálfbærrar þróunar, þýðir í rauninni að ganga ekki svo á auðlindir okkar að það takmarki möguleika barna okkar og barnabarna til þess að fullnægja sínum þörfum. Þetta snýst með öðrum orðum um að hafa hemil á græðginni hjá hverri kynslóð, hugsa til framtíðar, hugsa sjálfbært.

Því miður hefur þessi málsgrein að mestu verið felld út í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Aðeins síðasta setningin, þ.e. „Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi“ er bætt aftan við 1. mgr. frumvarpsins. Það er jú allnokkuð. Ég verð að viðurkenna að þó að ég sjái eftir ákvæðinu um sjálfbæra þróun og ákvæðinu um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og aðkomu að þeim málum verð ég að segja að ég tel mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði svona inni. Það er skref í rétta átt og ég vil minna á að þetta er ein af fjölmörgum breytingum sem var gerð til þess að koma til móts við athugasemdir Sjálfstæðisflokksins.