136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:07]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óumflýjanlegt fyrir þær samræður sem fóru fram áðan milli hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns stjórnarskrárnefndarinnar, að virðulegur forseti geri hlé á fundi um stund og kanni hvort möguleiki sé að fara með stjórnarskrármálið inn í nefnd í 2. umr. og reyni að leita sátta um þetta mikilvæga mál. Reyni að koma í veg fyrir að alþingismenn kasti rýrð á virðingu Alþingis með því að afgreiða þetta mikilvæga mál í svo miklum ágreiningi sem berlega hefur komið í ljós.

Það liggur fyrir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haft mikinn áhuga á því að ræða þetta mál rækilega. Það hefur ekkert þokast í samkomulagsátt eða náðst milli manna í þessari umræðu. En það er alveg greinilegt að það er ákveðinn flötur á málinu sem verður, virðulegi forseti, að láta reyna á í nefnd.