136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp og taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur sem talaði á undan mér. Mér finnst hrein nauðsyn í því að sú tillaga sem allsherjarnefndin er einhuga um að flytja og er afar mikilvægt mál er varðar greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði verði tekin til umræðu á undan stjórnarskipunarlögunum sem við vitum öll að þarf að ræða mjög vel og vandlega.

Þetta er mál sem getur hjálpað heimilunum í landinu og það er það sem verið er að kalla eftir og verið að bíða eftir. Ég tel því einsýnt að þegar um er að ræða mál sem greinilega er mikil samstaða um þar sem nefndin flytur þetta mál sameiginlega að við hljótum að geta orðið sammála um að færa það fram í dagskránni.