136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

dagskrártillaga.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér heldur áfram þetta fáránleikaleikhús sem Sjálfstæðisflokkurinn efndi til í gær. Nú er teflt fram ágætu frumvarpi um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána og látið í það skína að það skipti verulegu máli hvort það verður rætt hér í dag eða á morgun. (Gripið fram í.)

Ef hv. flutningsmaður dagskrártillögunnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur lesið þetta ágæta frumvarp sem við stöndum saman að mundi hann átta sig á því að gildistökudagur er 15. maí þannig að það haggar ekki miklu og sér ekki á svörtu hvort þetta er rætt í dag eða á morgun. (Gripið fram í.)

Það sem skiptir höfuðmáli er að við komum þingstörfum áfram og ljúkum umræðu um þau dagskrármál sem Sjálfstæðisflokknum þykir brýnast að ræða. Leyfum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að ljúka sér af. Virðum þinglegan rétt þeirra til að ljúka umræðu um það mál og síðan tökum við næstu mál á dagskrá. Það er engin bráð hætta búin þótt þetta mál bíði í 1–2 daga eftir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fái að ljúka þeim málum sem þeim finnst mestu skipta að ræða.