136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Yfirskrift þeirrar skýrslu sem við erum að ræða hér gæti verið á þennan veg: Bretar brennimerktu Íslendinga. Það er einmitt það sem kemur fram í skýrslunni. Ef maður les kaflann „Niðurstöður og ráðleggingar“ kemur eftirfarandi fram og ég ætla að lesa, með leyfi virðulegs forseta, tvær setningar úr þeim kafla:

„Beiting bresku hryðjuverka-, glæpa- og öryggislaganna frá árinu 2001 höfðu þó nokkrar afleiðingar fyrir viðleitni íslenskra yfirvalda til að viðhalda starfhæfu fjármálakerfi. Við förum fram á það við fjármálaráðherrann að íhuga hversu viðeigandi er að nota þessi lög til framtíðar við svipaðar aðstæður. Beiting laganna hefur óhjákvæmilega í för með sér óæskilegar afleiðingar brennimerkingar“ — ég endurtek, brennimerkingar — „fyrir þá sem verða fyrir þeim og því meira viðeigandi að grípa til aðgerða sem ekki hefðu slíkar óæskilegar afleiðingar í för með sér.“

Hér kemur mjög skýrt fram að breska þingnefndin setur ofan í við fjármálaráðherra Breta og það allverulega.

Sú niðurstaða sem nú er komin á að verða til þess að við náum betri samningum við Breta vegna Icesave-deilnanna. Samninganefnd okkar á að nýta þessa skýrslu sem mikilvægt gagn í viðræðunum og ég skora á hæstvirta ráðherra, bæði fjármála- og utanríkisráðherra, að nýta þessa skýrslu á (Forseti hringir.) allan hátt okkur til hagsbóta (Forseti hringir.) af því að hún er svo sannarlega móralskur stuðningur.