136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:30]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það ber að fagna því að okkur verður þó eitthvað að vopni þótt seint sé og styrkir það væntanlega stöðu okkar í því að geta krafist betri afgreiðslu frá breskum stjórnvöldum í sambandi við þá samningagerð sem við stöndum frammi fyrir, eins og Icesave-málið. Það væri fróðlegt að fá svar við því frá hæstv. ráðherra í hvaða farvegi samningaferlið allt er nú og viðræður við bresk stjórnvöld. Það hafa verið mikil deilumál um það og menn hafa haft á því mjög mismunandi skoðanir hvaða skuldir mundu lenda — ef svo færi — á íslensku þjóðinni.

Nú segja fréttir að jafnvel horfi svo að engar upphæðir muni lenda á íslenska ríkinu vegna Icesave-málsins og það væri fróðlegt að fá það upplýst í þessari umræðu hvort þannig er í pottinn búið. Efni þeirrar skýrslu sem við ræðum hér gefur okkur vopn til þess að sækja rétt okkar.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem hér er til svara hvort menn hafi farið vel yfir hverjar reglurnar eru í EES-samningnum um þegar ríki telur sig ekki ráða við skuldbindingar sínar og tilkynnir það til viðkomandi ríkis. Var það gert?