136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:44]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og tek undir þau orð hennar að Alþingi skuli móta sameiginlega stefnu og afstöðu í þessu máli. Það er mjög ánægjulegt hvað þingmenn í þessari umræðu eru einhuga hvað þetta mál varðar. Ég tek líka undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, að við eigum að nota þessa skýrslu í öllum samningum.

Niðurstaða rannsóknarnefndar fjármálanefndar breska þingsins er áfall fyrir fjármálaráðherra Breta og Gordon Brown en þess verður líka að geta að þetta er uppreisn æru fyrir hv. þm. Árna Mathiesen, sem mér finnst vera skylt og rétt að taka fram hér þó að ég sjái mér ekki fært að kjósa flokk hans í næstu kosningum, [Hlátur í þingsal.] en það er önnur saga. Ég tek þó undir þessi orð og legg það til að Alþingi Íslendinga og íslensk yfirvöld beiti sér jafnvel fyrir því að kynna niðurstöðu bresku nefndarinnar í Bretlandi, kaupi jafnvel auglýsingu í útbreiddu bresku blaði þar sem hún er kynnt og málefnin rakin svo að við fáum meiri móralskan styrk, svo að maður noti það hugtak. Ég held að það væri mjög gott fyrir Íslendinga að standa þannig að málum.