136. löggjafarþing — 129. fundur,  7. apr. 2009.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við lifum erfiða tíma og búum við erfitt ástand en vandinn er þó ekki óyfirstíganlegur. Allt sem þarf er skýr framtíðarsýn, skýr stefnumörkun, skýr sýn á hvernig við komumst út úr þeim erfiðleikum sem nú er við að etja. Við eigum að taka réttar ákvarðanir og við þurfum að taka þær hratt.

Við eigum að læra af sögunni, við þurfum að læra af síðustu heimskreppu. Þjóðir heims gripu þá til þess ráðs að loka sig hver bak við luktar dyr, bak við tollmúra og höft, og töldu sér trú um að þannig yrðu til lausnir á alþjóðlegum efnahagsvanda. Afleiðingin var enn dýpri kreppa, enn meira atvinnuleysi en ella hefði þurft að verða og slíkt vantraust milli þjóða að afleiðingin varð hrikalegustu styrjaldarátök sem mannkynið hefur upplifað.

Hver var forsendan fyrir efnahagslegri endurreisn Íslands? Hvað markaði vegferð Íslands frá örbirgð til bjargálna? Jú, það var þegar markaðir opnuðust fyrir íslenskar afurðir í Bandaríkjunum og Evrópu eftir stríð. Velsæld Íslands hefur ávallt verið samtvinnuð verslunarfrelsi, aðgangi að mörkuðum. Það eru tækifæri í öðrum löndum sem hafa skapað íslenska velsæld. Íslenskt efnahagslíf er, vegna þess hversu fámenn við erum, alltaf einhæft. Þess vegna þurfum við á fjölbreytni að halda sem við fáum fyrst og fremst með aðgangi að öðrum mörkuðum, aðgangi að þekkingu, aðgangi að þjálfun. Það er þannig sem við leggjum grunn að velferð til lengri tíma litið.

Fram undan er stærsta verkefnið okkar að tryggja störf fyrir 20.000 atvinnulausa. Það er verkefni sem við verðum að takast á við og það er verkefni sem okkur má ekki mistakast við. Ef það tekst ekki mun það fólk annaðhvort yfirgefa landið og leita sér að störfum annars staðar eða vera atvinnulaust til langframa. Hvorugur kosturinn er ásættanlegur.

Þessi störf geta einkum orðið til í iðnaði eða þjónustu. Þær greinar þurfa á engu öðru frekar að halda en stöðugu rekstrarumhverfi, lágum vöxtum og stöðugu gengi. Okkur hefur brugðist bogalistin við að tryggja viðeigandi rekstrargrundvöll fyrir atvinnulífið að þessu leyti á undanförnum árum. Það er dapurleg reynsla sem við verðum að læra af.

Heimilin þurfa líka traustari rekstrargrundvöll. Það er ekki boðlegt til langframa að við búum íslenskum heimilum þá umgjörð að borga alltaf heimsins hæstu vexti og að íslensk heimili þurfi að leggja í verulegar áhættufjárfestingar þegar þau kjósa að kaupa sér þak yfir höfuðið, þurfi annaðhvort að sæta hækkunum á lánum vegna verðtryggingar eða leita á náðir gengistryggðra lána með þeim hörmulegu afleiðingum sem við öll þekkjum í dag. Þess vegna þurfum við að líta á það sem meginmarkmið okkar að tryggja almenningi á Íslandi sambærileg lífskjör og í öðrum löndum, til þess að halda í fólk, til að gefa fólki von um að það sé þess virði að vera Íslendingar og vinna á Íslandi til lengri tíma litið. Einnig til þess að fyrirtæki geti byggt upp starfsemi hér á landi en þurfi ekki að hrökklast úr landi, þurfi ekki að byggja upp starfsemi sína í öðrum löndum. Og til þess að fólk geti risið undir kostnaði við daglegt heimilishald en þurfi ekki að leita sér að vinnu annars staðar.

Þess vegna vill Samfylkingin að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Það er mikilvægt langtímaverkefni en það er líka brýn aðgerð til skemmri tíma litið. Sú aðgerð ein og sér mun greiða fyrir úrlausn á brýnum vanda okkar í gjaldmiðilsmálum, hún mun auðvelda okkur að fá verðmyndun á gjaldmiðilinn og hún mun hjálpa okkur að ná stöðugleika í gengi krónunnar.

Við viljum síðan hefja aðildarviðræður og gæta þar að grundvallarhagsmunum þjóðarinnar og sérstaklega hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar. Við viljum að sjálfsögðu tryggja full yfirráð yfir auðlindum og samning sem felur þetta í sér viljum við leggja í dóm þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn býður okkur upp á einfalda framtíðarsýn í dag, hún er óbreytt ástand, hún er land í viðjum hafta, hún er land í viðjum einangrunar. Leiðin fram úr þeim vanda sem við stöndum í í dag er opið Ísland, frjálst Ísland, þar sem við virðum frelsi einstaklingsins, þar sem við tryggjum félagslegt réttlæti, þar sem við tryggjum tækifæri fyrir alla, þar sem við tryggjum samstöðu okkar allra um endurreisn efnahagslífsins, þar sem við gefum öllum pláss og allir geta komið með í þá vegferð. — Góðar stundir.