136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir að taka þetta mál hér upp og vekja á því sérstaka athygli. Það er rétt sem hann fjallaði um, sá greinarmunur er á almennu greiðsluaðlöguninni sem þegar er orðin að lögum og því frumvarpi sem við hér ræðum að þetta frumvarp um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í íbúðarhúsnæði tekur til allra, hvort heldur þeir eru atvinnurekendur eða launþegar. Skilyrðin sem hér eru talin upp fyrir greiðsluaðlöguninni eru tæmandi að mati nefndarinnar og þeirra sem sömdu frumvarpið, menn þurfa eins og ég sagði áðan að vera eigendur íbúðarhúsnæðis, og meira en það, þeir þurfa samkvæmt 2. gr. að vera þinglýstir eigendur, ekki aðeins hafa forræði á íbúðarhúsnæðinu eins og hv. þingmaður nefndi heldur vera þinglýstir eigendur þess.

Síðan er ég sammála honum með aðrar þær takmarkanir sem hann rakti í máli sínu en ég vek athygli á næstsíðustu málsgrein í 4. gr. frumvarpsins á blaðsíðu 3 þar sem segir að þegar úrskurður um greiðsluaðlögun sé genginn samkvæmt 3. gr. frestist nauðungarsala sem leitað kann að hafa verið á viðkomandi fasteign meðan reynt er að koma greiðsluaðlögun á. Eins frestast hún að sjálfsögðu eftir að greiðsluaðlögun er fengin.

Þessu til viðbótar vil ég nefna að þegar hafa tekið gildi lög sem fresta gjaldþrotum fram til loka október nk. þannig að svar mitt við því hvort þetta fresti gjaldþrotum eða stöðvi er: Já.