136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:24]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo í mínum augum að nánast öll gagnrýni á málsmeðferð, undirbúning og fleira í þessu máli fellur nánast um sjálft sig þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir að semja um að taka 1. og 2. gr. inn og jafnvel 3. Svo háttar til með 3. gr. og ég er sammála hv. þingmanni að það kann að þurfa að útfæra betur tæknilega orðafarið í henni. En ég minni á það að í öllum stjórnarskrám landa sem við berum okkur saman við hefur þjóðin rétt á að tjá sig um mikilvæg mál. Menn vilja hafa milliliðalaust lýðræði.

Að því er varðar tilvísanir hv. þingmanna í umsagnir halda þeir því gjarnan á lofti að allir umsagnaraðilar hafi verið á móti þessum breytingum. Svo er alls ekki. Hinir ágætu nefndarritarar sérnefndarinnar tóku saman yfirlitsblað yfir umsagnir og athugasemdir við einstakar greinar og skoði maður þetta yfirlitsblað lutu þessar athugasemdir að efnislegum undirbúningi og stuttum fyrirvara, sem við höfum öll heyrt margsinnis og ég hef heyrt og skynjað og skil, en þær lutu efnislega aðallega að 1. gr. og þá fyrst og fremst að 2. og 3. mgr. þeirrar greinar.

Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og aðilar sem áttu hugsanlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta gerðu athugasemdir við 1. gr. þrátt fyrir þá fullvissu mína að ekki sé verið að rugga bátnum hvað varðar sjávarauðlindirnar og nýtingarrétt þeirra sem eru handhafar aflaheimilda. Athugasemdir við 1. mgr. 1. gr., 2. og 3. gr. og jafnvel 4. gr. voru sárafáar. Þær voru formlegar en þær voru ekki efnislegar. (Forseti hringir.) Það er staðreynd þessa máls.