136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:25]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég held ég hafi lokið máli mínu í síðustu ræðu þar sem ég ræddi um stjórnlagaþing, á því að fjalla aðeins um stjórnlagaþingið í Austurríki sem sett var á fót árið 2003 til þess að endurskoða stjórnarskrá frá 1920. Ég endaði á því í ræðu minni að þær breytingar sem það stjórnlagaþing lagði til hefðu ekki náð fram að ganga. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið á þann veg að tillögurnar hafi verið lagðar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og þær hafi ekki fengið nægilega mikinn meiri hluta til að ná samþykki.

Ég held að ég hafi ekki verið búinn að tæpa á stjórnlagaþinginu í Suður-Afríku sem sett var á fót eftir fall stjórnar hvíta minni hlutans en þá samanstóð stjórnlagaþingið af báðum deildum suður-afríska þingsins en hafði sér til ráðgjafar nefnd sjö óháðra sérfræðinga. Í því dæmi var það því löggjafarsamkoman sem var stjórnlagaþingið.

Það er hins vegar athyglisvert að líta okkur aðeins nær, til Sviss, en þar er einmitt komin rík hefð á að stjórnlagaþing endurskoði stjórnarskrár kantónanna. Ég hef nú aðeins tæpt á þessu í fyrri ræðum en ekki kannski farið nægilega ítarlega ofan í það. Ég held að það sé ráð fyrir okkur á hv. Alþingi að skoða hvernig staðið hefur verið að þessu máli í Sviss að undanförnu ef við viljum fara þessa stjórnlagaþingsleið en þar hefur þetta verið gert þó nokkrum sinnum. Níu af 25 kantónum hafa sett á fót stjórnlagaþing frá árinu 1980 til þess að endurskoða stjórnarskrána og nú síðast var kosið til slíks þings í Genf síðastliðið haust. Hinar kantónurnar hafa síðan flestar endurskoðað sínar stjórnarskrár á sama tímabili en þá með hefðbundnari hætti.

Endurskoðun sem þessari er gjarnan hleypt af stað með samþykki stjórnarskipunarlaga í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er þá í rauninni ekki alveg í takt við það sem við erum að gera hér en tilgangur verksins er yfirleitt að færa texta frá 19. öld í nútímalegri búning og taka þá í nýju skjali á vandamálum samtímans. Fjöldi þingmanna á stjórnlagaþingi er á bilinu 60–200 og stjórnlagaþingin hafa fengið mjög rúman tíma til umráða eða frá þremur og hálfu ári upp í níu og hálft ár.

Og ef við hugsum okkar aðstæður í því samhengi er verið að keyra hér í gegn breytingar á stjórnarskránni á einum mánuði. En eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. síðasta ræðumanni, þekkist ekki að breytingar á stjórnarskrá séu keyrðar í gegn á einum mánuði.

Niðurstöður stjórnlagaþinganna eru síðan bornar beint undir þjóðaratkvæði en þó er, varðandi stjórnlagaþingið í Genf, gert ráð fyrir að niðurstaðan fari til löggjafarþingsins til afgreiðslu.

Kosið hefur verið beinni kosningu til þessara stjórnlagaþinga en þá hefur það verið hefðbundin listakosning og hafa hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar yfirleitt haft flesta fulltrúana.

Ég held að vegna þeirrar nokkuð fjölþættu reynslu sem þessi vinaþjóð okkar hefur af stjórnlagaþingi, þar sem slík þing eru í fjölda kantóna, ættum við að skoða þetta mun betur en við höfum gert hingað til og sjá hvað við getum lært af þeim. Það hafa gilt mjög fjölbreyttar reglur um stjórnlagaþing hjá hinum ýmsu þjóðum og við ættum auðvitað að skoða það þótt aðalreglan sé sú að þeir eru þjóðkjörnir sem þar sitja og oft þingmenn á þjóðþingum, enda ekki endilega kjörið beint til stjórnlagaþings.

Það var athyglisvert sem kom fram í umræðunni hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þegar hann ræddi um kosningafyrirkomulag á stjórnlagaþingi, að mikið hafi verið talað um persónukjör og það ætti að vera persónukjör til stjórnlagaþingsins. Það getur vel verið að það sé góð leið að fara þannig að því. Það hefur auðvitað verið nokkuð rík tilhneiging til þess í umræðu að undanförnu að leggja áherslu á persónukjör umfram listakjör, ef maður getur orðað það þannig. En í þeirri vinnu sem fram hefur farið hefur þetta ekki verið útfært á nákvæman hátt þannig að ég sjái raunverulega um hvers konar persónukjör er að ræða og hver útkoman úr slíku gæti orðið.

Aðeins hefur verið fjallað um þetta áður og var vitnað til þess í umræðunni að hv. þm. Tómas Árnason hefði í umræðum á Alþingi lagt til að í kosningu til stjórnlagaþings yrði persónukjör en það væri þá í gegnum einmenningskjördæmi. Ég átta mig ekki alveg á því nákvæmlega hvenær þetta var og er að reyna að rifja upp hvenær slíkar tillögur komu fram.

En alla vega held ég að þetta sé mjög athyglisverð tillaga því að svo sannarlega væri um persónukjör að ræða í einmenningskjördæmi. Komið hefur upp í umræðunum að hv. þingmenn hafa áhyggjur af því hvernig fulltrúadreifing um landið væri á þingi þar sem landið væri eitt kjördæmi og einstaklingar byðu sig fram til persónukjörs. Það væru 40–60 eftir því hve marga fulltrúa væri hægt að kjósa. Þá væri mögulegt, jafnvel líklegt og kannski óumflýjanlegt að flestir þessara fulltrúa væru frá þéttbýlissvæðunum og fulltrúar þeirra svæða og dreifbýlið ætti ekki mikla möguleika á því að koma að fulltrúum.

En það hlýtur að vera nauðsynlegt að landsbyggðin eigi þá fulltrúa á stjórnlagaþingi líka til þess að þar sé nægilega breiður hópur fulltrúa til þess að öll sjónarmið komi fram. Því ætti að vera hægt að ná fram ef kosningafyrirkomulagið væri einmenningskjördæmi og landinu væri skipt upp í kjördæmi. Þau væru þá nokkuð jöfn að stærð og væri tryggt að fulltrúar væru frá öllum svæðum. Ég held að það væri ráð ef menn vilja halda sig við stjórnlagaþingið og persónukjörið að fara þessa leið, einhvers konar jöfnunarkerfi vegna landsbyggðarinnar væri ómögulegt á annan hátt en í gegnum svona kerfi.

Ég held að í svona mikilvægu máli þurfi að liggja nokkurn veginn fyrir hvernig velja á á stjórnlagaþingið áður en það er samþykkt á hv. Alþingi, það hlýtur að vera grundvallaratriði við afgreiðslu málsins.