136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það eru nokkrir þættir sem ég vil nefna hér. Í fyrsta lagi hlýtur það að koma á óvart að ætlunin sé að taka stjórnarskipunarmálin aftur á dagskrá nú þegar fer að líða að miðnætti. Það eru auðvitað nýjar upplýsingar í sjálfu sér ef hæstv. forseti lýsir því yfir að nú sé ætlunin að ljúka þeirri umræðu. Þó að hér séu staddir ýmsir þeirra hv. þingmanna sem ætla sér að taka til máls þá bendi ég á að enn vantar töluvert marga í salinn sem eiga erindi í þá umræðu og hafa örugglega áhuga á að taka þátt í henni, svo sem eins og flutningsmenn málsins og fjölmarga þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem vafalaust hafa mikinn áhuga á þessu máli. Væri í rauninni mjög óeðlilegt ef umræðunni væri lokið án þess að þeir fengju tækifæri til að koma inn í umræðuna og skýra sjónarmið sín.