136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:58]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er útilokað að taka undir það að um vandaða lagasmíð sé að ræða þegar fyrir liggur í framhaldsnefndaráliti að svo hafi ekki verið. Þegar talað er um að mál þarfnist nánari skoðunar liggur það alveg fyrir að málið, eins og það var lagt fram í upphafi, hefur ekki verið skoðað með eðlilegum hætti. Ekki verður annað lesið út úr framhaldsnefndarálitinu en einmitt sú niðurstaða.

Í annan stað liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnir leggja aldrei fram drög að lagafrumvörpum, þær leggja fram lagafrumvörp. Þau lagafrumvörp eiga að vera fullmótuð og lýsa því sem ríkisstjórnir leggja til og hverju þær vilja ná fram. Það liggur fyrir að lagasetningarvaldið er í höndum Alþingis og það veltur á því hvort frumvarp sem kemur fram er samþykkt eða ekki. Þegar stjórnarfrumvarp kemur fram er um fullmótað frumvarp að ræða, það liggur fyrir að um er að ræða sjónarmið og skoðun framkvæmdarvaldsins, hvað það telur nauðsynlegt að verði lögfest til að ná ákveðnum markmiðum og ákveðnum árangri. Það er það sem ég er að gagnrýna, virðulegi forseti, ég tel að þarna hafi ekki verið um nægjanlega vandaða lagasmíð að ræða, málið hafi ekki verið kannað til hlítar.

Ég spurði, virðulegi forseti, í ræðu minni hvort menn teldu að ákvæði eins og í 1. mgr. 3. gr. stæðist og væri í samræmi við þjóðarétt og hvort það markmið sem að er stefnt varðandi 3. gr. næðist, hvort gengið hafi verið úr skugga um að svo væri. Ég lýsti jafnframt sérstöku áliti mínu á þeim hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Björgvini G. Sigurðssyni, (Forseti hringir.) taldi þá alls góðs maklega og taldi störf þeirra til fyrirmyndar — mér finnst því ánægjulegt að fá þá hér í andsvör.