136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:49]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að gömlum aðdáendum og sporgönguaðilum gömlu Sovétríkjanna skuli svíða það sárt að vitnað sé í hið þekkta verk Geroges Orwells um Dýrabæinn. Ég skil vel þau hughrif sem það hlýtur að vekja hjá gömlum fylgjendum þeirrar stefnu sem þar var við lýði, (Gripið fram í.) sérstaklega eftir — hv. þm. Mörður Árnason hefur vafalaust einhvern tímann sungið: Sovét-Ísland, óskalandið – hvenær kemur þú? — að í ljós kom að þau sjónarmið og þær myndlíkingar sem voru í Animal Farm eftir George Orwell áttu allar við, þær voru allar réttmætar.

Að halda því fram að þegar notaðar eru myndlíkingar í máli sé verið að vega að einhverjum aðilum, verið að vega að íslenskum listamönnum eða verið að vega að hæstv. menntamálaráðherra er þvílíkur ruglútúrsnúningur að það nánast tekur því ekki að svara slíku — ég biðst afsökunar á að þurfa að nota óþinglegt orðbragð — endemis rugli eins og kom fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur nú og áður hv. skoðana- og baráttubróður, Merði Árnasyni, þó að þau séu ekki í sama flokki eins og stendur. (Gripið fram í.) Það er nú einu sinni þannig að þau sjónarmið sem komu fram og ég var að vísa til áttu sér vissa samlíkingu hvað þetta varðar og það vita fáir betur en hv. þm. Mörður Árnason, sem er lærður á íslenska tungu og þá líka líkingamál, hvernig slíkt er notað. Að ætla að fara að snúa út úr með þeim hætti sem hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Mörður Árnason (Forseti hringir.) gerðu hér í andsvörum sínum er ekki bara ómerkilegt (Forseti hringir.) heldur líka óréttlátt.