136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:56]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. Gunnars Svavarssonar ættum við sjálfstæðismenn kannski að túlka þessi orð vinstri grænna sem bónorð um að fara í stjórn með þeim á næsta kjörtímabili. Það skyldi þó ekki vera?

En það var ekki út af þessu sem ég kem í ræðustól, virðulegi forseti, heldur ætla ég að fylgja hér eftir athugasemd frá hv. þm. Ástu Möller út af orðum hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á fundi samtaka félaga sem starfa sjálfstætt í heilbrigðisstarfsemi þar sem hann með ótrúlegum hætti dró í raun og veru í efa heiðarleika heillar starfsstéttar, lækna. Beint var spurningum hér til hv. þm. Þuríðar Backman, formanns heilbrigðisnefndar, og ég verð að viðurkenna að ég hreinlega skildi ekki svör hennar því að mér fannst hún frekar vera svara einhverju um hærri skatta og lægri laun en hvaða skoðun hún hefði á þessum makalausu ummælum hæstv. heilbrigðisráðherra.

Það er grafalvarlegt mál, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór hér líka mjög vel yfir, þegar hæstv. heilbrigðisráðherra víkur með þeim hætti sem hann gerði í gær að læknum og gefur það í skyn og raunar gefur það ekkert í skyn heldur segir það beint út að þetta séu allt saman einhverjir svikahrappar (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) og þeir misvirði allt það sem þeim hefur verið kennt og þær siðareglur sem þeir hafa undirgengist að fylgja í störfum sínum. Því að hann sagði það beint út að ef læknar fyndu ekkert að sjúklingi í því kerfi sem þarna var verið að benda á byggju þeir það til til að geta stungið peningnum í eigin vasa. Það var nákvæmlega þetta sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði. Ég kalla (Forseti hringir.) eftir skýrari svörum frá hv. þingmanni.