136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvernig kemur maður í veg fyrir að gagnagrunnur af þessu tagi verði misnotaður sem verslunarvara, að upplýsingar um heilbrigði fólks, að upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir tryggingar gangi kaupum og sölum? Hvernig kemur maður í veg fyrir það? Maður gerir það til dæmis með því að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum því þeir hafa innan borðs menn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal sem vill markaðsvæða heilbrigðiskerfið, er því ekki fráhverfur að hér verði komið á einkatryggingum í heilbrigðismálum þar sem upplýsingar um einstaklinginn fari að skipta máli einmitt sem markaðsvara. Ég held að staðreyndin sé sú að Íslendingar almennt vilji leggja sitt af mörkum til vísindarannsókna hvað varðar upplýsingar um sína eigin sjúkdóma. Þetta hefur verið hið almenna viðhorf á Íslandi. Þegar sú hætta hins vegar blasti við að heilbrigðiskerfið yrði markaðsvætt þannig að upplýsingar um mig fara að skipta máli sem verslunarvara þá var annað upp á teningnum. Þetta varð þess valdandi að andstaðan gegn gagnagrunninum á sínum tíma varð eins hatrömm og raun ber vitni. Það er ekki vegna þess að menn vildu ekki leggja sitt af mörkum til vísindarannsókna. Það var heldur hitt að menn höfðu áhyggjur af því að hugsjónir manna á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal yrðu að veruleika.