136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst ég ekki þurfa að benda hv. þm. Þuríði Backman, einum af varaforsetum þingsins, á að lesa þingsköpin. En það er alveg ljóst af 53. gr. þingskapanna að stjórnarskrárfrumvarpið verður ekki tekið á dagskrá að loknu því máli sem nú er til umræðu. Það er vegna þess að þeir sem bera fram þá tillögu sem hér var kynnt munu leggja fram framhaldsnefndarálit og leggja fram breytingartillögur sínar og í þingsköpunum er kveðið skýrt á um að óheimilt sé að taka slíkt nefndarálit og slíkar tillögur fyrir fyrr en að liðnum einum sólarhring.

Hins vegar skil ég ekki af hverju hv. þm. Siv Friðleifsdóttir bregst svo illa við tillögum um það að í stjórnarskrá verði sagt að íslenska ríkið fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru einkaeign og hafi eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og að skipuð verði nefnd (Forseti hringir.) til að endurskoða stjórnarskrána (Forseti hringir.) og fara í heildarendurskoðun. (Forseti hringir.) Mér er algerlega óskiljanlegt af hverju hv. þingmaður bregst svo illa við slíkum hugmyndum.