136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[16:16]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um sjúkraskrár. Eins og fram hefur komið er frumvarpið afrakstur vinnu nefndar um sjúkraskrár sem sett var á laggirnar þann 2. október árið 2007. Nefndin starfaði undir forustu hv. þm. Daggar Pálsdóttur og skilaði störfum þann 10. apríl 2008.

Í nefndinni og nefndarstarfinu var sérstaklega litið til löggjafar Evrópusambandsins, ESB, þar sem til grundvallar eru nokkrar reglur sem nýtast við lagasmíði í tengslum við rafrænar sjúkraskrár. Meðal þessara viðmiðunarreglna eru svokölluð tilgangsregla, áreiðanleikaregla, upplýsingaregla og öryggisregla.

Tilgangsreglan er þannig að þar kemur mjög skýrt fram að ekki skal nota upplýsingar nema í samræmi við þann tilgang sem þeirra var aflað. Áreiðanleikareglan felur í sér öryggi í færslu upplýsinga, um áreiðanleika og réttmæti upplýsinga sem til staðar eru. Upplýsingareglan er sett m.a. til að tryggja aðgang sjúklings að sjúkraskrá en einnig til þess að sjúklingar viti hverjir hafa fengið aðgang að sjúkraskrá þeirra. Öryggiskrafan er þannig að m.a. er kveðið á um að óviðkomandi hafi ekki aðgang að sjúkraskrám og að öryggi gagna sé tryggt.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um sjúkraskrár. Það var lagt fyrir áður í kjölfar þess að nefndin skilaði af sér í apríl 2008. Þá var það lagt fyrir á 135. löggjafarþingi og nú er það flutt aftur á yfirstandandi þingi.

Ýmis álitamál voru við samningu frumvarpsins og í umræðu nefndarinnar og þar snerust álitamálin aðallega um persónuvernd og aðgengi að sjúkraskrám, einnig um uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár, verndun hennar og eignarhald á henni.

Eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir hefur þegar nefnt var lagaumhverfi um sjúkraskrár mjög ábótavant. Það vantaði lög um þær. Það var eiginlega gert ráð fyrir því í löggjöf undanfarinna áratuga að sjúkraskrár væru til staðar og umræðan á árum áður hefur aðallega snúist um aðgengi sjúklinga að þeim.

Í fyrstu persónuverndarlögum upp úr 1980 eða í kjölfar þeirra var kveðið á um það að sjúklingur eða einstaklingur gæti snúið sér til læknis til að fá upplýsingar um sína sjúkraskrá. Ýmislegt hefur því breyst og er um það bil að breytast með samþykkt þessa frumvarps, vonandi sem fyrst. En það hafa verið margir óvissuþættir í umræðunni líka, t.d. um eignarhald á sjúkraskrám. Er sjúkraskráin í eigu sjúkrastofnunar? Eða kannski læknisins eða annarra heilbrigðisstarfsmanna? Er eignarhaldið í höndum sjúklingsins? Svona álitamál hafa verið hér um nokkurt skeið.

Um miðjan tíunda áratug var í löggjöf gert ráð fyrir því að sjúklingar hefðu aðgang að sjúkraskrám eftir 1990. Þá höfðu læknar aðallega áhyggjur af því að mögulega væri eitthvað í orðafari í vinnunótum þess eðlis að þeir vildu ekki endilega gefa frjálsan aðgang til sjúklings að sínum gögnum. Þetta hefur ekki reynst, samkvæmt upplýsingum hv. þm. Daggar Pálsdóttur, vera eins flókið mál og margir höfðu áhyggjur af.

Hvað varðar réttindi sjúklinga upp úr 1990 var sjúkraskráin skilgreind þannig að hún væri ekki beint eign sjúkrastofnunar eða læknis heldur væri hún til varðveislu þar. Aftur var óljóst hver átti þessar sjúkraskrár.

Hver og einn sjúklingur getur sem betur fer leitað sér heilbrigðisþjónustu víða hér á landi, farið til heilsugæslustöðvar, á sjúkrahús eða til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna. Ljóst er að það væri gott, ef það er mögulegt, að tengja rafrænt þær upplýsingar sem eru til um hvern og einn sjúkling. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir tvíverknað, t.d. við rannsóknir eða það að mismunandi heilbrigðisstarfsmenn eða heilsugæslustöð og sjúkrahús sendu sama sjúkling aftur og aftur í sams konar rannsókn á stuttu tímabili.

Frumvarpið opnar möguleika á rafrænni samtengingu sjúkraskráa. Þannig verða þær samtengdar og aðgengilegar í þágu heilbrigðis einstaklinganna og í þágu öryggis þeirra. Sýnin er sú að heildræn sjúkraskrá einstaklings frá vöggu til grafar muni auka öryggi í meðferð og greiningu sjúklinga. Þar væri til staðar yfirlit yfir meðferðir, lyfjanotkun og ástand einstaklinganna.

Hver þekkir ekki sögur úr heilbrigðiskerfinu um tvíverknað, t.d. í rannsóknum? Ég á nokkrar. Það er ekki langt síðan að kær vinur minn fór á heilsugæslustöð, stuttu seinna til sérfræðings í Reykjavík og stuttu þar á eftir á sjúkrahús í Reykjavík. Í öllum tilvikum, við könnuðum það síðar meir, var verið að reyna að afla sömu upplýsinga með væntanlega dýrum rannsóknum sem hægt væri að koma í veg fyrir ef þarna væri samtenging.

Hver þekkir ekki dæmi um ávísun mismunandi lyfja sem mismunandi læknar ávísa til sama sjúklings? Þá er ég sérstaklega með í huga dæmi um aldraða. Ég hef t.d. dæmi frá ömmu minni heitinni. Það var einhvern tímann á því tímabili sem við óttuðumst alvarlega um heilsu hennar ömmu. Þá fórum við í rælni, ég og systir mín, að skoða í lyfjaskápinn hennar. Þá kom í ljós að á hverjum einasta morgni setti þessi yndislega gamla kona fyrir framan sig 13 lyf. Ég kann ekkert í lyfjafræði og ætla ekki að þykjast kunna neitt í lyfjafræði en ég get alveg sagt ykkur það að þessi kokkteill var beinlínis hættulegur. Lyfin sem amma mín heitin taldi vera læknandi urðu að einhvers konar súpu sem reyndist afar hættuleg. Ég ætla svo sem ekkert að rekja þá sögu miklu lengra en svo að við fórum með hana í hasti á gjörgæsludeild í kjölfarið og þar kom í ljós að hún var með hættulega eitrun vegna samverkandi og gagnverkandi og misvíxlandi áhrifa þessara mismunandi lyfja.

Ég þykist vita að flestir þingmenn og landsmenn þekki svona sögur. Þetta er ekki einungis hættulegt, sem mér finnst reyndar alvarlegasta málið, heldur er þetta hræðilega dýrt. Að búa til svona banvæna kokteila er alveg hræðilega dýrt.

Rafræn samtengd sjúkraskrá hefur þann möguleika að auka öryggi sjúklings, og ég trúi því að hún geri það, að minnka tvíverknað og þar með kostnað einstaklinga og ríkissjóðs, að það verði meira samræmi í ávísun lyfja og aukin gæði í allri þjónustu í heilbrigðiskerfinu, betri lífsgæði sjúklings og um leið minnkandi kostnaður.

Með rafrænum sjúkraskrám getur fylgt vandi í tengslum við perónuvernd enda kom það fram í starfi nefndarinnar og síðan í þingnefndinni. En samkvæmt upplýsingum frá hv. þm. Dögg Pálsdóttur teljast girðingar og varnaglar sem til staðar eru í frumvarpinu tryggja persónuvernd nokkuð vel. Einnig kom fram í máli hv. þingmanns að óformlegar umsagnir Persónuverndar hefðu verið jákvæðar, nánast engar athugasemdir við frumvarpið.

Frumvarpið lýtur að öryggi sjúklings, aðgengilegra vinnuferli fyrir heilbrigðisstarfsmenn og þetta ætti að auka gæði meðferðar og fyrirbyggja mistök.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að meðal breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu séu eftirfarandi atriði:

Skýrlega er mælt fyrir um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að færa sjúkraskrár, í fyrsta skipti í íslenskri löggjöf. Þá er tilgangur með færslu sjúkraskráa skilgreindur. Mælt er fyrir um að sjúkraskrár skuli færðar rafrænt að því marki sem unnt er. Rafrænt sjúkraskrárkerfi er skilgreint. Kveðið er á um heimild til að samtengja rafræn sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna og um réttindi sjúklinga í því sambandi. Þá er um það að ræða að lögfest er heimild til annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu og nema í starfsnámi í heilbrigðisvísindum til að færa tilteknar upplýsingar í sjúkraskrár og hafa aðgang að þeim, enda hafi þeir undirgengist sambærilegar trúnaðar- og þagnarskyldur og heilbrigðisstarfsmenn almennt. Þá er kveðið á um að nánar sé fjallað um rétt sjúklinga við færslu upplýsinga í sjúkraskrá. Kveðið er á um rétt sjúklings til að leggja bann við því að tiltekinn eða tilteknir heilbrigðisstarfsmenn hafi aðgang að sjúkraskrá hans. Skýrt er kveðið á um rétt sjúklings til að fá upplýsingar um það hverjir hafi skoðað sjúkraskrá hans, hvar og hvenær og í hvaða tilgangi. Settar eru skýrar reglur um aðgang að sjúkraskrám látinna einstaklinga.

Þetta kemur fram í frumvarpinu sem helstu breytingar með tilkomu væntanlegra laga sem byggja á frumvarpinu.

Uppbygging frumvarpsins er í sjö köflum. Þar er að sjálfsögðu inngangur. Síðan er talað um færslu sjúkraskráa, um varðveislu sjúkraskráa, um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum, um samtengingu rafrænna sjúkraskrárkerfa, um sameiginleg sjúkraskrárkerfi og VII. kafli er um ýmis ákvæði.

Þegar skoðuð eru nánar álitaefni og eins athugasemdir við frumvarpið kemur fram í nefndaráliti að helst voru 11 álitaefni til umræðu. Þessi 11 álitaefni eru reifuð í nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar og ætla ég að leyfa mér að telja þau upp.

1. Aðgangshindranir. Nefndin ræddi um þær og taldi að þær athugasemdir sem komu fram í meðförum frumvarpsins hafi ekki gefið tilefni til að breyta því. Þær aðgangshindranir sem lagðar eru til í frumvarpinu eru samþykktar af hv. heilbrigðisnefnd.

2. Sérstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar. Fram komu ábendingar í nefndarvinnunni að ekki væri þörf fyrir þá viðbótarflokkun upplýsinga sem birtist í orðalaginu „sérstaklega viðkvæmar sjúkraskrárupplýsingar“, í 13. gr. og 5. gr. frumvarpsins. Nefndin féllst ekki á að fella umrædda viðbótarflokkun brott og telur brýnt að sjúklingar séu við færslu sjúkraskrár upplýstir um réttindi sín samkvæmt frumvarpinu.

3. Takmörkun aðgangs jafngildi höfnun á meðferð. Það kom fram að aðeins í undantekningartilvikum mundi þetta eiga við. Bent var á að aðgangur að réttum upplýsingum geti verið forsenda þess að unnt sé að tryggja rétta meðferð.

4. Uppbygging rafrænnar sjúkraskrár. Þetta tel ég vera grundvallaratriði, virðulegi forseti, vegna þess að mismunandi rafræn kerfi eru notuð á mismunandi stofnunum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og í einkareknum stofnunum. Í því álitamáli sem snýst um uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár kemur fram að mótun heildarstefnu í notkun rafrænnar sjúkraskrár væri mikilvægur þáttur samhliða undirbúningi að innleiðingu ákvæða þessa frumvarps. Rafræn samtenging byggir á því eins og okkur öllum er kunnugt að rafrænu kerfin geti talað saman, að þau séu þess eðlis að hægt sé að tengja þau. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra skilgreini í reglugerð þær tæknikröfur og þá staðla sem rafræn sjúkraskrárkerfi verði að uppfylla. Þannig er augljóst að mikið verk er fyrir höndum við innleiðingu þessara laga, verði frumvarpið að lögum, sem ég held að við öll vonum á hinu háa Alþingi. En fram undan er gríðarlega mikil vinna, samræmingarvinna á þessum rafrænu kerfum.

5. Eigandi rafrænnar sjúkraskrár. Athyglisverð umræða og álitamál er spurningin: Hver á rafræna sjúkraskrá? Það kom fram að í frumvarpinu væri ekki tekin beinlínis afstaða til þessa heldur mælt fyrir um vörslu sjúkraskrárinnar og heimildir til aðgangs að henni. Í frumvarpinu er fyrst og fremst talað um vörsluna og aðganginn að sjúkraskránni. Fram kom sá skilningur fulltrúa heilbrigðisráðuneytis og landlæknis í nefndarvinnunni að sjúkraskrá gæti ekki verið eign í þeim skilningi sem almennt er lagður í það hugtak. Hún er samkvæmt þessu hvorki eign sjúklings, heilbrigðisstarfsmanns né heilbrigðisstofnunar. Nefndin tók undir þennan skilning.

6. Aðgangur annarra stétta en skilgreindra heilbrigðisstétta. Nefndin benti á að ákvæði frumvarpsins sem að þessu lúta í 5., 13. og 24. gr. tækju á þessum málum. Í 5. og 13. gr. er fjallað um færslu sjúkraskráa og aðgang annarra starfsmanna og nema, og ráðherra er heimilt að kveða nánar á um aðgangstakmarkanir og mismunandi aðgang í reglugerð, samanber 24. gr. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið skerði aðgangsheimildir samkvæmt öðrum lögum sem fjalla um aðgang.

7. Aðgangur sjúklings að eigin sjúkraskrá. Ákvæði frumvarpsins um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá er að mestu leyti sambærileg við núgildandi lög um réttindi sjúklinga.

8. Aðgangur að sjúkraskrá látins einstaklings. Nefndin lagði til að ákvæði laga um réttindi sjúklinga sem þetta varðar standi óbreytt en hvetur til þess að þau verði endurskoðuð. Í máli hv. þm. Daggar Pálsdóttur komu fram efasemdir um að þetta ákvæði ætti að standa í samræmi við það sem áður greindi og hv. þingmaður var með tillögur um hvernig mætti gera það á annan veg sem ég hvorki þekki né ætla að reifa hér.

9. Uppfærsla sjúkraskrárupplýsinga. Fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins voru ekki sammála og bentu á að upptalning töluliðar, þ.e. 1. tölul. í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins þyrfti að samræmast alþjóðlegum stöðlum. Þarna kemur aftur að því að til þess að sýnin um samræmda sjúkraskrá og öryggi sjúklings gangi upp þarf samræmingu og staðla.

10. Varðveisla sjúkraskráa. Rétt þótti að skýra það að skylda væri að varðveita sjúkraskrá og sú skylda falli ekki brott um leið og sjúklingur deyr.

11. Skilgreiningar. Loks var rætt svolítið um skilgreiningaratriði.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið að lögum skapast með rafrænni sjúkraskrá einstaklings yfirsýn, öryggi, skilvirkni og gæði í umönnun sjúklings og auk þess sparnaður. Ég tel frumvarpið vera mikilvægt skref í þróun íslensks heilbrigðiskerfis og lýsi ánægju með að líklega verður það að lögum á allra næstu dögum ef ekki síðar í dag.