136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

niðurstöður PISA-kannana.

[10:42]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Efnahagslíf okkar er í rúst eins og allar vita og það er mikilvægt að við náum að rífa okkur upp úr því. Til að geta gert það þurfum við að efla menntakerfið en sú klisja hefur gengið um þetta samfélag í langan tíma að við búum við svo öflugt menntakerfi. Því miður er það ekki alveg þannig. Við höfum frábæra kennara og jafnan aðgang að skólum en samt komum við illa út í samanburði við önnur lönd. PISA-kannanirnar sem eru gerðar meðal upp undir 60 landa sýna að við náum einungis miðlungsárangri og OECD hefur gagnrýnt yfirvöld fyrir það að þessi árangur telst alls ekki nægjanlegur miðað við það að við verjum meira fjármagni en nokkur önnur þjóð innan OECD á hvern nemanda. Þrátt fyrir að allir leggi sig fram er árangurinn ekki góður, í grunnskólunum sérstaklega, og okkur hefur hrakað milli kannana. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Sú klisja sem sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið á lofti um að menntakerfið hér væri afar öflugt á ekki við rök að styðjast þegar við skoðum samanburðinn við önnur lönd, því miður, virðulegur forseti.

Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra út í þennan kerfislæga galla sem ég leyfi mér að halda á lofti að hljóti að vera í menntakerfi okkar. Þrátt fyrir góða kennara, þrátt fyrir jafnan aðgang er árangurinn ekki nógu góður. Hver telur hæstv. menntamálaráðherra að sé skýringin á því? Hver er skýringin á þessum slaka árangri? Og hvað hefur hæstv . menntamálaráðherra gert til að reyna að ná betri árangri til framtíðar litið í þessu kerfi, menntamálum þjóðarinnar? Það hlýtur að þurfa að byggja inn meiri hvata í kerfið til að ná betri árangri og þetta er svo brýnt mál núna þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að efla menntun í kerfinu til að geta sótt fram með íslenskt (Forseti hringir.) efnahagslíf og íslenskt velferðarkerfi til framtíðar.