136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þessu máli er ekki lokið. Það er klárt ef menn vilja koma orðinu þjóðareign inn í stjórnarskrána þá þarf að halda því áfram. Það er alveg skýrt. Það tókst ekki fyrir kosningarnar 2007 og við erum ekki með tillögu um það núna. Ég hef skilið það þannig að málinu sé að ljúka hér núna en umræðan verður að halda áfram.

Ég legg áherslu á að hv. þingmaður og aðrir læri af þeirri reynslu sem hér hefur skapast. Það þýðir ekki að fara fram með þetta mál á þessum grundvelli. Það verður að leita sátta og vinna þessi mál og þess vegna leggjum við fram þessa tillögu um að kosin verði nefnd, hlutfallskosningu, að menn fari í þessa vinnu með skipulegum hætti og leggi fyrir Alþingi ákveðnar tillögur eins og gert var vorið 1994 sem skilaði síðan góðum árangri með breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.