136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur stundum fyrir hér í þingsal að hv. þm. Atli Gíslason kastar af sér skikkju lögmannsins og íklæðist hempu lýðskrumarans og ýmislegt af því sem hann sagði áðan ber vitni um það. Til dæmis að andstaða okkar sjálfstæðismanna við frumvarpið sem hér er til umræðu og aðdraganda þess máls alls stafi af því að við viljum halda í einhver völd.

Ástæðan fyrir því að við beitum okkur gegn þessu frumvarpi hér á þingi er ekki út af einhverjum flokkshagsmunum. Alls ekki. Það eru engir flokkshagsmunir í húfi hér. Alls ekki. Ég bið menn að benda á þá flokkshagsmuni sem kynnu að vera fyrir hendi varðandi þessar breytingar. Mér er alveg óskiljanlegt hvernig menn halda því fram. Það hefur reyndar gerst áður í þessari umræðu.

Hæstv. forseti. Ég átti tvær mínútur en ekki eina.

(Forseti (GSB): Forseti hafði tilkynnt áður að það var ákveðið að stytta tíma í andsvörum og hver ræðumaður hefði eina mínútu.)

Þá verð ég að beygja mig undir það vald, hæstv. forseti. En ég nota þá bara tækifærið og ítreka mótmæli mín við aðdróttunum hv. þm. Atla Gíslasonar.