136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[17:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get fagnað með hv. þingmanni og tek undir að það er mjög gott að þetta sé komið í framkvæmd.

Ég var ekki að gera lítið úr einum eða neinum skoðunum í ræðu minni áðan. Ég ber virðingu fyrir skoðunum annarra og ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Það sem ég fetti fingur út í hér var stefnuleysi og ósamstæð stefna í ríkisstjórn. Ég var að gagnrýna að ríkisstjórn sem er skipuð tveimur flokkum sem ætla sér að fara hér áfram í ríkisstjórnarsamstarf fái þeir til þess umboð eru algjörlega hvor á sínum endanum þegar kemur að þessu verkefni. Ég set spurningarmerki við það sem kjósendur standa frammi fyrir núna þegar þeir ganga að kjörborðinu. Hver verður stefna með-og-á-móti-ríkisstjórnarinnar? Hvort verður stefna þeirrar ríkisstjórnar sem yrði þá mynduð fylgjandi framkvæmdum sem þessum og tilbúin til að beita pólitískum vilja og pólitískri stefnu í þágu þess að byggja upp svona verkefni eða á móti þess háttar samningum og þess háttar verkefnum? Það var það sem ég var að fetta fingur út í.

Ég ber mikla virðingu fyrir andstæðum skoðunum en mér þykir verra þegar þær er að finna innan sömu ríkisstjórnar um svona grundvallaratriði, sérstaklega þegar það er innan ríkisstjórnar sem verið er að mynda á teikniborðunum úti um allt miðað við það sem maður heyrir. Þessir tveir flokkar eru búnir að gefa það út að þeir vilji ekki vinna með neinum öðrum. Á hverju eiga kjósendur von? Eiga þeir von á að með-og-á-móti-ríkisstjórnin verði með orkufrekum iðnaði eða verður með-og-á-móti-ríkisstjórnin á móti orkufrekum iðnaði?