136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kaus að lýsa í þessari ræðu afstöðu minni til þessa máls með ýmsum rökum og athugasemdum og hyggst ekki fara mikið lengra í því. Við erum sammála, ég og hæstv. umhverfisráðherra, í afstöðu okkar til málsins og í ýmsu öðru sem varðar umhverfismál þó að við séum í tveimur flokkum enn þá af ástæðum sem sprottnar eru af öðrum hlutum.

Ég get bara endurtekið þetta: Nei, ég tel að umhverfisstefna Samfylkingarinnar sé í fullu gildi. Ég veit að mikill meiri hluti forustumanna Samfylkingarinnar vill einlæglega koma henni í brúk enda hefur ekki verið neitt lát á, hvað eigum við að segja, flaggskipi þessarar áætlunar eins og það hefur komist í gegnum tvær ríkisstjórnir, rammaáætluninni. Ég bind miklar vonir við það að þegar þessum áfanga lýkur í því verki geti skapast ný undirstaða sem m.a. kemur í veg fyrir slys eins og hér kynni að vera í uppsiglingu, nefnilega það að allar orkulindir á Reykjanesskaga, allar tækar orkulindir — nema maður tali um stórslys, stórumhverfisslys — renni aðeins á þennan stað. Síðan verði ekki meira eftir fyrir annan orkufrekan iðnað en orka úr vatnsaflsvirkjunum eða jarðhitavirkjunum sem ekki verður við unað að nýttar séu með þessum hætti og þá er kannski ágætt að vísa til ágætrar ræðu sem á köflum var og Kristinn H. Gunnarsson flutti hér áðan, um verðmæti orkulindanna fyrir Íslendinga í bráð og lengd.