137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra og mun fjalla um málið í ræðu á eftir. En ég vildi spyrja hann út í það sem lýtur að 6. og 8. gr. frumvarpsins. Þar er verið að mæta þeim sjónarmiðum úr efnahagsnefnd að leita eigi umsagnar viðeigandi þingnefnda. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Annars vegar hvort ætlunin sé að senda eigi aðeins a-lið 8. gr. til umsagnar hlutaðeigandi þingnefndar, þ.e. afmörkunin á félögunum eða nýta reglur um sölu félaganna síðar, og liði b og c.

Hins vegar, vegna þess að hæstv. ráðherra er hokinn af þingreynslu, hvort hann minnist þess að þessi háttur hafi verið áður eða almennt verið hafður á að þingnefndir veiti umsögn um reglugerðir. Og hvort það sé ekki nokkuð sérstakt fyrirkomulag þó augljóslega sé verið að reyna að fara eftir (Forseti hringir.) ábendingum efnahags- og skattanefndar fyrir kosningar.