137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er spurning um fyrirkomulag og leið sem valin er. Að aðrir aðilar eða meðeigendur með ríkinu kæmu að eignarhaldi sjálfs eignarumsýslufélagsins er að mínu mati ekki sérstaklega skynsamleg ráðstöfun. Það er markmið þessa félags að halda þessar eignir eins stutt og mögulegt er og koma þeim síðan aftur í hendur annarra aðila. Þá kemur að fjárfestum, lífeyrissjóðum, skráningu í kauphöllina o.s.frv. með alveg sama hætti og ég held að það mundi ekki einfalda ferlið inni í bönkunum ef bankarnir færu að taka utanaðkomandi meðeigendur inn í eignaumsýslufélögin sem þeir stofna. Þeir hafa að vísu tekið, það ég best veit, við fáum verkefnum enn þá, en það er nákvæmlega sama aðferðafræðin þar á ferðinni. Þetta er AMC eins og það er kallað á enskunni og er þekkt fyrirbæri. Ég hvet menn til að kynna sér það að nánast í öllum tilvikum þar sem lönd hafa lent í sambærilegum hremmingum og við hafa menn m.a. gripið til þessa ráðs, (Forseti hringir.) að byggja sérhæfa fagþekkingu á einum stað, í einhverju fyrirtæki, á vegum ríkisins eða banka sem annast þessa fjárhagslegu endurskipulagningu.