137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[17:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við seinni spurningunni er nei. Hv. þingmaður veiðir mig ekki svona auðveldlega í gildru. Ég fer ekki að nafngreina hér einstök fyrirtæki. (SDG: Ekki þessi.) Ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja af hverju. Það er varla gild spurning upp að bera og hv. þingmaður ætlar mig meiri einfeldning en ég er ef hann heldur að ég gangi í þessa gildru. Að sjálfsögðu fer ég ekki að nafngreina aðila sem gætu komið til greina. (Gripið fram í.) Ég geri það yfirleitt ekki.

Varðandi sérþekkingu og fagfólk held ég að við Íslendingar eigum aðeins að horfast í augu við að við erum ekki endilega snillingar á öllum sviðum. Við reyndumst ekki jafnmiklir snillingar í bankarekstri og við héldum, í alþjóðlegum bankarekstri eða útrásarfjárfestingarævintýrum. Og það er ekkert að því að horfast í augu við að á sumum sviðum getum við vel notað okkur sérfræðilega ráðgjöf víðar að en frá okkur sjálfum. Ég tel vel koma til greina að svona fyrirtæki leiti sér eftir atvikum ráðgjafar hjá sérfræðingnum sem eru fagfólk nákvæmlega í þessu fagi, fái ráðgjöf frá slíkum aðilum, ráði jafnvel slíka aðila til sín og þá byggist upp á einum stað slík sérþekking. Það er fullt af fólki í bönkunum og það er líka fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum núna sem búa yfir mikilli þekkingu og færni á þessu sviði. Þá krafta gætum við eftir atvikum nýtt í þessu verkefni eftir því sem á þyrfti að halda. Það er ekki gert ráð fyrir því að það hafi kostnaðaráhrif fyrir ríkið eða feli í sér meiri ábyrgð eða áhættu fyrir ríkið en orðið er með þeirri staðreynd að fyrirtækið er komið í hendur ríkisins. Það er í höndum banka sem ríkið á, með þeirri ábyrgð og áhættu sem því fylgir. Það er verið að reyna að varna tjóni og skaða. Það er verið að reyna að hámarka verðmæti. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir bruna. Auðvitað kostar það en þá telja menn sig vera að verja meiri hagsmuni fyrir minni og það sé hinn þjóðhagslegi ávinningur sem við erum á höttunum eftir, að starfsemin rofni ekki, fólk missi ekki vinnuna, verðmæti glatist ekki, þekkingin fari ekki forgörðum. (Forseti hringir.) Það er eftir miklu að slægjast í slíkum efnum þannig að menn mega ekki alveg gleyma ávinningnum og einblína bara á kostnaðinn.