137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:25]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti, hv. þingmenn. Við höfum hlustað hér á ræðu hæstv. forsætisráðherra um horfur í efnahagsmálum og þær eru ekki góðar. Það voru í sjálfu sér engar nýjar fréttir. Þjóðin stendur frammi fyrir, eins og komið hefur fram, einhverju stærsta efnahagsvandamáli sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir kannski fyrir utan þær þjóðir sem þurftu að rísa úr öskustó síðari heimsstyrjaldar í Evrópu á 5. áratugnum.

Það er ekki auðhlaupið að því að leiðrétta það sem er að hér, en það sem ég saknaði í máli forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru einhverjar forsendur fyrir þessum efnahagsbata sem ég tel að standist ekki. Ein af þeim forsendum er einhvers konar stöðugleiki sem á að komast á gjaldmiðilinn og við höfum heyrt það í nokkuð margar vikur og nokkra mánuði að allt lagist þegar stöðugleiki kemst á í gjaldmiðilsmálum. Þeir sem nenna að hugsa um málið hafa lengi vitað að krónan er ónýtur gjaldmiðill og hún verður það þangað til skipt verður um gjaldmiðil í þessu landi. Hún skoppar upp og niður á einhverjum prísum sem enginn ræður við. Hér er komin í gang önnur peningamaskína fjármálamanna sem leika sér með íslenskt hagkerfi og íslensk peningamál eins og þeim sé alveg sama um land og þjóð. Nú selja eigendur svokallaðra jöklabréfa, sem fjármálaráðherra vill ekki upplýsa hverjir eru, vaxtatekjur sínar fyrir evrur sem þeir fara með úr landi, kaupa evrur á 175 kr. stykkið, selja þær á gengi evrópska seðlabankans, á gengi sem íslensk stjórnvöld vilja meina að sé svartamarkaðsgengi, fá þar 220–230 kr. fyrir hverja evru og koma með þá peninga aftur heim til Íslands.

Hvers konar stöðugleiki á eiginlega að skapast í svona umhverfi og hvers konar fyrirbæri eru hér á ferð sem ekki má stöðva? Hvers vegna má ekki stöðva svona hluti? Getur einhver selt mér jöklabréf? Þau eru bara ávísun á auðæfi. Hvers vegna eru ekki settir háir skattar á þessa fjármagnsflutninga úr landi til þess að stöðva þá? Ég átta mig ekki á því hvers vegna ríkisstjórnin bregst ekki við svona málum og hvers vegna hún bregst ekki við vanda heimilanna t.d. með því að lækka höfuðstól lána. Það mundi að vísu koma aðeins við kaunin á fjármagnseigendum en í augum þessarar ríkisstjórnar eru þeir heilagar kýr og má ekki ræða það að færa verðtryggingu húsnæðislána aðeins niður til þess að leiðrétta hækkun sem hvort eð er hefði ekki orðið nema vegna efnahagsóstjórnar íslenskra ríkisstjórna.

Skuldastaða ríkisins hefur ekki verið rædd og það liggur ekki fyrir hver hún er. Verið er að tala um nettóskuldir út og suður og þá eru settar fram einhverjar ævintýralegar pælingar um hvaða eignir gætu hugsanlega komið á móti. Það er aldrei hægt að ræða um skuldir af þessu tagi með þeim hætti sem gert er. Það veit enginn hverjar þær eignir eru, það veit enginn hvað fæst fyrir þær, það veit enginn hvort hægt er að selja þær. Sumar þeirra renna út eftir einhver ár og enginn veit lengur hvort þau fyrirtæki sem gefið hafa út þau bréf verða lengur til staðar. Ef tryggingarnar á bak við hluta af Icesave-dæminu eru svona góðar, hvers vegna taka þá ekki bresk stjórnvöld þær tryggingar gildar?

Hvað er í gangi með Icesave-deiluna? Við vorum á fundi í gær, fólk úr Borgarahreyfingunni, með mönnum sem komið hafa að Icesave-samningaviðræðunum og það voru ekki fagrar lýsingar sem við fengum á þeim fundi. Þar eru í gangi alls konar tengsl úti um allt í endurreisnaráætlun íslenskra stjórnvalda og ESB-aðilarviðræðum íslenskra stjórnvalda, m.a. það sem komið hefur fram áður, að Íslendingar verða að axla allar Icesave-skuldbindingarnar ef þeir eiga að fá aðgang að Evrópusambandinu. Verið er að velta skuldum fjárglæframanna yfir á almenning í stórum stíl og það er ósanngjarnt, það er óréttlátt og það á ekki að gera. Ég hafna því sem venjulegur borgari og skattgreiðandi í þessu landi að þurfa að taka þátt í því að borga þetta niður sjálfur og ég skora á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða í þeim málum.

Hér hafa komið fram upplýsingar, sem ég hef líka heyrt annars staðar frá að séu réttar, að annar áfangi lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hangi á þeirri sömu spýtu að Íslendingar axli ábyrgð á öllum Icesave-skuldbindingunum. Það hafa líka komið fram upplýsingar á fundum okkar um að það verði að fara að drífa í þessu og ganga frá Icesave-málinu sem fyrst vegna þess að Landsvirkjun sé að brenna inni með afborganir af lánum sínum en það eru einfaldlega ekki til peningar til þess.

Hér er allt of margt óljóst og það er ekki hægt að bjóða þingheimi upp á efnahagsumræðu þar sem ekki er tekið á þessum málum. Vandi heimilanna er slíkur að með sama áframhaldi verða í lok ársins 2009 28.500 heimili með neikvæða eiginfjárstöðu. Hvaða afgreiðslufólk í hvaða stofnunum ætlar að hjálpa þessu fólki öllu saman? Það er enginn mannskapur til þess, það eru engin úrræði til að hjálpa þessu fólki.

Annað atriði sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt snýr að þinginu sjálfu, hæstv. forseti, en það er forgangsröðun þingsins. Hér stendur yfir sumarþing vegna þess að það eru afbrigðilegar aðstæður uppi í íslensku samfélagi. Það varð hér efnahagshrun, það liggur mikið á að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hér er verið að raða inn stafla af þingmálum sem hafa ekkert með þessi mál að gera í stað þess að leyfa forgangsmálum og nauðsynlegu málum að koma hér inn til afgreiðslu, senda þau til nefnda og leyfa þeim að vinna af viti. Ganga í það að klára þessi mál og senda þingið einfaldlega heim á meðan þannig að nefndirnar fái vinnufrið til að ljúka þessum málum með hraði. Í stað þess er hér dembt inn af hálfu ríkisstjórnarinnar a.m.k. 38 málum og kannski er von á fleirum. Ég hef hlustað á umræðu um hugsanlega ferkantaðar marglyttur og rusl og guð má vita hvað. Mér er einfaldlega misboðið og ég veit að þjóðinni er líka misboðið. Hér ríkir neyðarástand og mér finnst að ríkisstjórnin verði að taka betur á málum.

Það vantar enn rannsókn á þeirri íslensku stjórnsýslu og þeim íslensku stofnunum, m.a. Seðlabanka Íslands sem skrúfaði einfaldlega frá krananum og tapaði 350 milljörðum á nánast einu bretti. Þar er ekki við einn mann að sakast sem heitir Davíð Oddsson, það er alveg á hreinu, og það er ekki hægt að láta sem svo að það sé allt klappað og klárt af því að hann er farinn. Í Seðlabankanum eru starfsmenn og sérfræðingar og heilt svið sem heitir fjármálastöðugleikasvið. Það var sett á stofn þegar ég starfaði í bankanum. Laun þeirra starfsmanna voru það há að það þurfti að hækka laun bankastjóranna til þess að þeir yrðu ekki láglaunastarfsmenn í samanburði við nýju starfsmenn þessa fjármálastöðugleikasviðs. Hvað gerði fjármálastöðugleikasvið, hvar voru starfsmennirnir? Hvaða ráð gáfu þeir í aðdraganda hrunsins? Ég vil bara fá að vita það og ég tel að það þurfi að upplýsa, hæstv. ráðherra.

Til hvaða aðgerða greip fjármálaráðuneytið í aðdraganda hrunsins? Hvers vegna var almenningur ekki upplýstur um þetta mál? Það er kannski rúsínan í pylsuendanum að farið var með það sem mannsmorð.

Hér er risavaxinn vandi sem stjórnsýslan og stjórnvöld á Íslandi ráða að mínu mati ekki við. Það þarf að stíga nokkur skref aftur á bak og draga andann og hugsa málið upp á nýtt. Og það þarf að fá hingað fleiri menn eins og Mats Josefsson til þess að aðstoða Ísland og Íslendinga við að endurskipuleggja efnahagsstarfsemina og hagkerfið. Ef það verður ekki gert er ég hræddur um að við endum á enn verri stað en við erum á í dag og að mínu mati stefnum við þangað hraðbyri, ekki síst þegar höfð er í huga forgangsröðunin á þessu þingi.