137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ekki orðið neitt einsdæmi að við þingmenn lesum um mikilvægar fréttir úr efnahagslífi á síðum dagblaðanna. Við lásum um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í DV og nú lesum við enn frekari upplýsingar í erlendum fjölmiðlum. Það er eins og þingmenn komi alltaf að orðnum hlut, upplýsingagjöfin er nær engin, og þar af leiðandi er niðurlæging þingsins og alþingismanna algjör ef þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, ætla að láta þetta viðgangast áfram. Það er framkvæmdarvaldið sem þiggur umboð sitt frá Alþingi Íslendinga og við þurfum að fara að gera ráðherrum í þessari ríkisstjórn grein fyrir því.

Ég vil spyrja hv. formann viðskiptanefndar hvað hún ætli sér að gera með skýrslu Olivers Wymans. Á að opinbera hana? Á að taka það fyrir á vettvangi efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar eins og við framsóknarmenn höfum beðið um? Ég vil líka spyrja formann viðskiptanefndar, sem á einnig sæti í efnahags- og skattanefnd þingsins, hvort hún telji ekki ástæðu til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða í þágu heimilanna í landinu í ljósi þess að nýleg þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir því að 28.500 heimili verði með neikvætt eigið fé í árslok. Ætlar ríkisstjórnin að fljóta sofandi að feigðarósi og horfa upp á það að tugþúsundir landsmanna þurfi að horfast í augu við gjaldþrot um næstu áramót? Eða ætla menn að grípa til einhverra alvöruaðgerða? Við hljótum að kalla eftir því á sumarþinginu að ríkisstjórnin taki sér tak og komi með einhver önnur mál en urðun á sorpi og erfðabreyttar lífverur. Við köllum eftir málum sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu raunverulegu máli. Við köllum líka eftir upplýsingum, að ríkisstjórnin upplýsi okkur um stöðu mála þannig að við getum farið að gera einhverja hluti af viti í samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Við þurfum að standa saman á tímum sem þessum.