137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér störf þingsins. Við ræðum beiðni einstakra þingmanna um að haldinn verði fundur í viðskiptanefnd. Hv. formaður viðskiptanefndar segir að fyrir viðskiptanefnd hafi engin mál legið í síðustu viku. Ég spyr þingheim: Geta nefndir ekki fundað og rætt yfirstandandi mál í samfélaginu, jafnbrýnt mál og það að bankahrunið er enn óuppgert? Bankarnir eru ekki komnir á legg. Getur hv. viðskiptanefnd ekki fundað og rætt það mál án þess að ríkisstjórnin sendi inn eitthvert erindi þar að lútandi? Telur formaður viðskiptanefndar málið ekki brýnna en svo að hún bíður eftir valdboði ríkisstjórnarinnar til þess að ræða það með hvaða hætti, hvort og hvernig byggja eigi upp íslenskt bankakerfi?

Virðulegi forseti. Það sæmir ekki formanni viðskiptanefndar og það sæmir ekki þingmönnum almennt að bíða eftir boðvaldi ríkisstjórnarinnar til þess að fjalla um þau mál sem brýnust eru í samfélaginu. Það er okkar þingmanna að ræða þau þegar þarf að ræða þau og í þingsköpum stendur að biðji þingmenn um fund í nefnd þá beri formanni að verða við þeirri ósk.

Bankarnir hafa ekki verið endurreistir. Það berast í blöðum fréttir af því sem er að gerast. Starfsmenn bankanna lesa í blöðum um eitthvað sem er að gerast eða ekki að gerast. Þingheimur á rétt á því að fundað sé um þetta í þeirri nefnd sem á að fjalla um málið. Og það er ósæmilegt af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að væna hv. þm. Guðlaug (Forseti hringir.) Þór Þórðarson um að hann hafi ekki verið til þess bær að hefja þessa umræðu. Hann situr í viðskiptanefnd (Forseti hringir.) og á rétt á því að viðskiptanefnd verði boðuð til fundar.