137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra skuli vera komin úr helgarfríinu og að við ræðum þetta mál.

Það bárust tölvupóstar og símtöl hérna í síðustu viku til mín frá starfsmönnum Straums – Burðaráss og Sparisjóðabanka þar sem verið var að spyrjast fyrir um hvernig stæði á því að menn ætluðu ekki að standa við yfirlýsingar stjórnvalda og skilanefnda viðkomandi fjármálastofnana um að starfsmenn fengju greidd laun í uppsagnarfresti. Þeir sögðu að hæstv. ráðherra hefði lofað því að taka málið hratt og vel fyrir í þinginu en síðan hefði ekkert gerst. Það virtist að vísu eitthvað hafa verið rætt um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki á fundi ríkisstjórnarinnar 15. maí en ekkert fréttist og þótti ekki nein sérstök ástæða til að funda um málið í viðskiptanefnd.

Hins vegar er nú búið með afbrigðum að keyra lagafrumvarpið inn í þingið þannig að ég fagna því enn á ný að viðskiptaráðherra skuli vera komin úr helgarfríinu. Hann áttar sig á því að það skiptir máli að fólk fái borguð laun í samræmi við fyrri loforð. (Gripið fram í.) Hér er hins vegar um mistök að ræða sem gerð voru þegar verið var að breyta lögum um fjármálafyrirtæki. Því er verið að lagfæra mistökin í lögum nr. 44/2009, þar sem slitastjórn var raunar bannað að greiða nokkuð út fyrr en að loknum fyrsta kröfuhafafundi.

Við, nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins, höfum lagt fram sams konar frumvarp. En það er að sjálfsögðu í takt við gömul vinnubrögð og ekki í anda þeirra nýju vinnubragða sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað að stjórnarmálið er að sjálfsögðu sett inn einn, tveir og þrír en við þurftum að biðja sérstaklega um að þingmannamálinu yrði dreift á sama tíma fyrst málin komu fram um svipað leyti.

Hér er talað um að nýtt ákvæði eigi að bætast við til bráðabirgða. Það er svohljóðandi:

„Þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar fjármálafyrirtækis ef skilanefnd telur víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.“

Mér þætti mjög áhugavert að vita hver ástæðan er fyrir því að þetta er sett inn hér sem bráðabirgðaákvæði. Í okkar frumvarpi er talað um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Slitastjórn er heimilt að greiða forgangskröfur fyrir fyrsta kröfuhafafund ef stjórnin telur að forgangskröfur fáist greiddar að fullu eða hlutfallslega miðað við áætlaðar heimtur á jafnstæðum kröfum. Einnig er slitastjórn heimilt að greiða út forgangskröfu ef aðrir kröfuhafar sem eru jafnsettir samþykkja greiðsluna.“

Það væri þá kannski ástæða til þess að viðskiptanefnd skoðaði að setja inn það sem kemur fram í þessu frumvarpi, þ.e. að tala um að það sé gert hlutfallslega miðað við áætlaðar heimtur á jafnstæðum kröfum. Að hægt sé að greiða kröfur þar sem áætlað er að heimta kannski 75%, 80% en ekki 100%, og skoðað verði að breyta bráðabirgðaákvæðinu á þann veg. Ég ætla hins vegar ekki að leyfa mér að vera svo bjartsýn að halda að mál þingmanna komist nokkuð á dagskrá fyrst stjórnarfrumvarpið er komið inn.

Eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki talið að hér sé um neinn kostnað fyrir ríkissjóð að ræða heldur er það raunar skilanefndin eða bankarnir sjálfir, þrotabúin, sem eigi til fjármuni fyrir þessu. Það hefur alla vega komið fram varðandi Straum – Burðarás að til eru peningar til þess að greiða út laun sem forgangskröfu. Og varðandi Kaupþing Edge er líka hægt að standa skil á innstæðum innstæðueigenda í útibú Kaupþings í Þýskalandi sem eru rúmlega 300 milljónir evra.

Þetta eru greinilega leið mistök og ég held að það liggi alveg fyrir að það var ekki vilji löggjafans að lögin yrðu túlkuð á þennan máta. 102. gr. virðist ekki hafa verið nógu skýrt orðuð en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrest er slitastjórn heimilt í einu lagi eða mörgum að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu að því marki sem tryggt er að eignir fjármálafyrirtækisins hrökkvi til a.m.k. jafnháar greiðslur allra annarra krafna sem standa eins í réttindaröð eða hefur ekki endanlega verið hafnað við slitin.“

Ég held að það hafi verið hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sem talaði um það í sjónvarpsviðtali að það væri ágætt að við reyndum að orða lagatexta og þessi flóknu hugtök á einfaldari hátt þannig að við skildum þau flest. Ég hef svolitlar áhyggjur af lögunum um fjármálafyrirtæki, þetta er orðið allt mjög lögfræðilegt og flókið. Í þessu tilviki virðist vera að hv. þingmenn hafi ekki skilið í raun og veru hvað verið var að færa í gegn í frumvarpinu. Það er spurning um að við reynum að einfalda svolítið textagerðina okkar þegar við fjöllum um lagafrumvörp.

Þetta er gott mál og ég er mjög ánægð að sjá að það er komið fram. Ég hefði hins vegar talið eðlilegra að það hefði verið fyrsta málið sem hæstv. viðskiptaráðherra flutti á nýju þingi. Ég fagna því að við munum geta unnið hratt og vel í því og vonandi sent það út til umsagnar sem allra fyrst og ljúka því eftir 2. og 3. umr. þannig að fólk geti fengið greidd laun í samræmi við loforð stjórnvalda þess efnis.