137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir árnaðaróskir til hæstv. sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar með að við skulum vera að hefja hvalveiðar í dag, það er mikið fagnaðarefni.

Ég ætla hins vegar að taka orð hans til íhugunar og skoða frumvarp um strandveiðar sem er hér til umræðu með jákvæðum og opnum huga. Ég held að við séum öll sammála um það hér inni og víðast hvar í þjóðfélaginu að það er mjög aðkallandi að við opnum fyrir nýliðun inn í greinina, við erum öll sammála um það. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert og þeir sem eru að fara inn í greinina aftur við þennan gjörning eru einmitt þeir sem hafa selt sig út úr greininni. Það eru þeir sem eiga kvótalausu bátana, það eru þeir sem hafa reynsluna, það eru þeir sem hafa fjármagnið.

Komið hefur fram að bátarnir hafa hækkað mjög mikið í verði, bátur sem kostaði eina milljón kostar í dag sjö milljónir. Því velti ég því upp og vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því hvort hann væri hugsanlega tilbúinn að skoða reglur sem væru þá þannig að þeir sem væru búnir að selja sig út úr greininni mættu ekki fara þangað inn aftur eða þá hugsanlega með einhverjum tímamörkum aftur í tímann, kannski þrjú ár eða fjögur ár eða jafnvel lengur. Þessir menn sem seldu sig út úr greininni, seldu þá hlutafélögin og borguðu 10% skatt. Síðan eiga þeir bátana kvótalausa núna og bíða eftir því að komast inn aftur. Það sem ég hræðist í þessu er að þetta muni ekki verða gott fyrir nýliðun í greininni. Ég geri ekki lítið úr áformum hæstv. sjávarútvegsráðherra að leggja frumvarpið fram með þeim hætti.

Þarna eru menn sem eru búnir að selja sig út úr greininni og eru að fara aftur inn jafnvel í annað, þriðja eða fjórða sinn. Ég held að við séum öll sammála um, alveg sama hvar við erum í pólitík, að það er ekki mjög gott. Sá ljóður hefur verið á þessu kerfi okkar að menn hafa getað farið með mikla peninga út úr þessari grein og skilið eftir veikar byggðir, illa settar. Þess vegna fóru menn þá leið að búa til byggðakvóta einmitt til þess að bregðast við svona uppákomu, til að styrkja byggð þar sem menn höfðu farið í burtu með stóran hluta af kvótanum.

Ég tek heils hugar undir með þeim sem hafa bent á að menn þurfi að fara varlega í því að færa byggðakvótann frá hinum veikari byggðum en ég leyni því hins vegar ekki og hef aldrei gert að ég tel að byggðakvótinn sé ekki eingöngu góður, hann hefur líka galla, svo að því sé haldið til haga.

Það sem ég hef líka áhyggjur af og vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um er að settur skuli hámarksafli í þorski, 800 kíló á dag. Síðan mega vera 3% af ýsu og 15% af ufsa. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki skynsamlegra að hafa ákveðinn heildarafla á dag og miða við allar tegundir, þ.e. að menn færu t.d. frá mínu heimasvæði, sem ég þekki, til veiða og væru við ákveðin skilyrði nálægt landi þar sem þeir veiddu jafnvel helming eða 50–60% af ufsa á móti þorski og þeir kæmust ekki frá landinu. Þá mundi það vera niðurstaðan. Það væri þá hvati til þess að menn héldu áfram að veiða og hentu hugsanlega ufsanum í staðinn fyrir að ef það væri heildartala yfir daginn væri alveg sama hvort aflinn væri ufsi, þorskur eða ýsa. Ég held að það væri mjög skynsamlegt og hvet hæstv. ráðherra að skoða það.

Ef ég skil hæstv. sjávarútvegsráðherra rétt, hann leiðréttir það ef svo er ekki, eru 55% þess magns sem áætlað er í strandveiðarnar eingöngu í þorski. Ekki eru nefndar aðrar tegundir og eftir því sem ég fæ best skilið mun hæstv. sjávarútvegsráðherra úthluta því með líkum hætti og gert hefur verið en ekki með því að taka einhver ákveðin byggðarlög út, eins og hann sagði hér í upphafi.

Ég velti líka fyrir mér þeim fimm dögum sem menn mega veiða, þ.e. alla daga nema um helgar. Í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar kom fram hvort ekki væri skynsamlegt að menn mundu þá róa einhverja fimm daga vikunnar en ekki eingöngu á virkum dögum þannig að þeir reru ekki í tvísýnum veðrum. Það ætti ekki að vera mjög flókið að halda utan um slíkt kerfi að menn færu fimm róðra ekki eingöngu á virkum dögum.

Ég vil aðeins nefna að það er ekki sjálfgefið við þessar breytingar að þær fjölgi neitt störfum eða styrki byggðirnar. Bátar eins og á Snæfellsnesi hafa farið hluta af sumrinu á skak eða handfæraveiðar, kannski í einn til einn og hálfan mánuð. En ef þeir ætla að fara inn í þetta kerfi verða þeir að vera þar fram til 1. september, sem þýðir að þar sem tveir menn róa og fjórir menn beita í landi munu þessir fjórir missa vinnuna fram í september. Ég hugsa að margir muni fara inn í nýja kerfið vegna þess að á þessum tíma er oft ekki mikil veiði og menn þurfa stundum að prófa sig áfram og kanna hvort kominn sé grundvöllur fyrir því að róa á línuna aftur.

Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á hefur byggðakvótinn valdið deilum. Það er alveg rétt, það hefur ekki alltaf verið auðvelt að úthluta honum. Þá verða menn líka að segja alls staðar það sama. Komið hefur fram í máli vinstri grænna í tengslum við fyrningarleið núverandi ríkisstjórnar að þeir vilji einmitt taka 1/3 af kvótanum og setja hann í byggðakvóta aftur. Það hlýtur að koma upp sama vandamálið þar ef menn ætla að taka 1/3 af öllum aflaheimildunum og setja í sveitarfélögin þegar menn eiga í vandræðum með að úthluta þessum litla byggðakvóta sem er í dag. Það verður að segja það sama gagnvart þeim rökum sem borin eru fram hér og þeim sem menn ætla að nota við þær aðstæður.

Ég tek undir það sem komið hefur fram varðandi að menn noti reynsluna frá þessu ári. Ég treysti því að hæstv. sjávarútvegsráðherra geri það. Ef við ætlum að færa til heimildir, megum við ekki taka þær frá þeim veikustu byggðunum sem þola það ekki. Það eru hugsanlega einhverjar byggðir sem mundu þola að frá þeim sé færður dálítill byggðakvóti en við þurfum að halda utan um það og ég treysti hæstv. sjávarútvegsráðherra fullkomlega að gera það.