137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara vekja athygli á að gert er ráð fyrir að að hámarki megi 15% af aflanum vera ufsi og einnig er ýsuafli upp á 3% þannig að inni í þessum heimildum eru bæði ufsi og ýsa að einhverju marki. Að nokkru leyti ætti að vera girt fyrir þann vanda sem hv. þingmaður minntist á í þeim efnum.

Að sjálfsögðu er heimild til að færa tegundir á milli í skiptingu byggðakvótans þannig að í þann byggðakvóta sem verður til ráðstöfunar, samkvæmt þeim reglum sem hafa verið í gildi, mun vafalaust færast meira af þeim tegundum sem ekki verða almennt teknar á færi. Þannig að það eru heimildir þar inni.

Ég vil síðan árétta að ég tel að með frumvarpinu sé ekki síst verið að opna á líf í sjávarbyggðunum að sumri til, líf fyrir ungt fólk, skólafólk, sem kemur heim og skapar þar líf. Eins og hv. þingmaður minntist á hefur það gjarnan verið þannig að menn hafa tekið sér sumarfrí á sama tíma og starfsemi sjávarbyggðanna hefur þá legið niðri á meðan. Það eru því margir jákvæðir punktar í þessu sem við reynum síðan að draga reynslu af.

Eitt til viðbótar: Ég hef hugleitt og það er til skoðunar í ráðuneytinu að ýmiss konar eftirlit eða umsögn um árangur þessara veiða — að við munum nýta þessi setur eins og Vör í Ólafsvík og strandsvæðasetur á Ísafirði og önnur slík setur vítt og breitt um landið til þess að vera með í að meta bæði veiðilegan og samfélagslegan árangur (Forseti hringir.) af þessu verkefni. Það er mín skoðun og það er minn vilji, frú forseti.