137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Yfirbótin sem hér er verið að gera er ekki hvað síst gagnvart verkum fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einars Kristins Guðfinnssonar, sem með lögum í haust, þar sem gengið var á samningsbundinn rétt í búvörusamningunum við afgreiðslu fjárlaga, þar sem þær voru skertar.

Eins og hv. þingmaður hefur vitnað hér til bentum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á að þarna væri trúlega um ólögmæta aðgerð að ræða. Það hefur síðan komið á daginn að okkur hafa verið kynnt, að ég held, a.m.k. þrjú aðskilin lögfræðiálit, sem m.a. Bændasamtökin hafa látið vinna, um að þessi aðgerð hæstv. ráðherra hafi trúlega verið ólögleg og ekki staðist lög. Bæði af þeim ástæðum og einnig til þess að tryggja stöðu landbúnaðarins var það sameiginleg ósk landbúnaðarráðuneytisins, þáverandi landbúnaðarráðherra og Bændasamtakanna að vita hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi um þetta mál og jafnframt að treysta betur stöðu landbúnaðarins til lengri tíma, m.a. með lengingu á samningstímabilinu í tvö ár, og einnig að draga úr þeim skerðingum sem Alþingi hafði samþykkt við afgreiðslu fjárlaga.

Ég tel því að mjög farsællega hafi verið staðið að þessu máli og tel (Forseti hringir.) mjög farsælt að þessir samningar hafi náðst en minni hv. þingmann á að gjörningurinn í haust hefur trúlega verið ólöglegur.