137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn vill aðildarviðræður en við erum með nokkur skilyrði og það skiptir miklu hvernig haldið verður á þessu máli í þinginu. Ég er að mörgu leyti sammála innihaldi ræðu hæstv. utanríkisráðherra og tel að við eigum að skoða mjög alvarlega núna að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að þingið og stjórnsýslan geti unnið bæði að þessu máli og efnahagsmálum í einu en svo virðist sem ríkisstjórnin geri mjög lítið af því að vinna að efnahagsmálunum, því miður.

Ég er með tvær spurningar, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi: Er ríkisstjórnin fallin ef ekki verður samþykkt á næstu vikum að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða skiptir það engu máli fyrir ríkisstjórnina? Í öðru lagi: Ef þetta verður samþykkt af minni hluta þingsins, hver er samningsstaða okkar að mati hæstv. utanríkisráðherra? (Forseti hringir.) Skiptir það engu máli eða veikir það samningsstöðu okkar?