137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra, því að það er hann sem fer með málið samkvæmt stjórnarskránni, það er hann sem semur og enginn annar, er búinn að gera einhvern samning um fá undanþágur í sjávarútvegi til 15 ára um að Íslendingar megi borða hákarl í 10 ár eða eitthvað því um líkt, leggur hann ákveðinn samning fyrir þjóðina. Þá verður sagt: Takið þið þennan samning eða ekki. Takið þið þennan samning af því að hann er lausn á dæminu. Þið fáið ekki allar þær töfralausnir sem við höfum bent á, allt þetta góða, lækkaða vexti, lækkað verðlag, atvinnutryggingu og ég veit ekki hvað og hvað. Þá standa menn einmitt í þeim sporum sem Vinstri grænir þykjast vera á móti og hugsa að allir samþykki þetta af því að þeir fá ekkert annað. Það er þessi hætta, það er þessi samningstækni, það er þetta trix sem Vinstri grænir hafa fallið á á prófinu.