137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt, vegna þess sem hér hefur verið rætt, að lesa niðurlag þeirrar tillögu sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa lagt hér fram.

Það er svona, með leyfi forseta:

„Þegar niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.“

Á þessu er auðvitað munur. Tillaga ríkisstjórnarinnar, þ.e. þeirra ráðherra sem ætla sér að styðja hana, hverjir svo sem það nú eru, gengur út á að tekin verði ákvörðun strax um að ganga til aðildarviðræðna. Síðan skoði menn málin í framhaldinu.

Tillaga stjórnarandstöðunnar gengur út á að við förum yfir málið, búum til þann vegvísi sem nauðsynlegur er til að tryggja góða sátt í samfélaginu um það hvernig á málinu skuli haldið ef Alþingi kemst í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að sækja eigi um aðild að ESB. (Forseti hringir.) Á þessu er grundvallarmunur.