137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[19:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég hef mikinn skilning á því að ríkið þurfi að afla sér tekna við núverandi aðstæður. Ég vil hins vegar segja að ég hafði töluvert minni skilning á því hvað fyrri ríkisstjórn, minnihlutastjórnin, gerði lítið fram að kosningum. Það lágu fyrir fyrirætlanir um ákveðnar aðgerðir sem vörðuðu sparnað hjá ríkinu. Því var öllu frestað. Ég verð að segja að ég hafði mjög lítinn skilning á því að menn væru þar nánast að misnota aðstöðu sína í kosningabaráttunni.

Þar sem ég hef skilning á því að ríkið þurfi að afla sér tekna hlýt ég náttúrlega að gera þá kröfu að ríkið og ríkisvaldið og þeir þingmenn sem sitja í ríkisstjórn sýni heimilunum og fyrirtækjunum í landinu skilning. Það verði að sýna þeim skilning á því að gengistryggð lán hafa tvöfaldast, að kaupmáttarskerðingin er nú þegar á ársgrundvelli um 11%, að vörukarfan samkvæmt neyslukönnun ASÍ hefur hækkað um 25% og verðtryggð lán hafa hækkað um 20%. Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað um 20%.

Það kom fram í lok viðræðnanna á milli stjórnarflokkanna að það skipti miklu máli að vinna samkvæmt þeirri reglu, í orðum forsætisráðherra, að skattbyrðin verði aukin hjá þeim sem megi við því frekar en þeim sem hafi litlar eða meðaltekjur. Ég hlýt því að gagnrýna að hér eru að koma fram hækkanir á sköttum sem munu líka hvíla þungt á þeim sem eru með litlar eða meðaltekjur án þess að fram komi nokkrar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að verja þessi áhrif af skattahækkunum á heimilin. Engar upplýsingar koma fram um það. Það kemur ekki fram í orðum hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin ætlar að auka skattbyrðina einmitt hjá þeim sem mega frekar við því en þeir sem hafa litlar eða meðaltekjur. Það kom ekkert fram um það í orðum hæstv. ráðherra.

Hins vegar er það svo að við í stjórnarandstöðunni þurfum að lesa fréttir af því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í sambandi við þetta stóra gat, þennan 170 milljarða halla, í blöðunum. Við erum ekki boðuð á neina fundi í Þjóðmenningarhúsinu. Við erum ekki einu sinni boðuð á fundi hér innan þingsins til að fá upplýsingar um hvað ríkisstjórnin hyggst gera. Við erum bara látin mæta hérna með hálftíma fyrirvara til að ræða um skattahækkanir og auknar álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu.

Ég var hins vegar svo heppin, ef má orða það svo, að ég var að tala við fjölmiðlamann fyrir rúmum klukkutíma síðan sem sagði mér að þetta væri í bígerð. Hann sagði mér meira að segja nákvæmlega tímasetninguna, að það ætti að leggja þetta mál fyrir klukkan hálfsjö í kvöld. Ég kom náttúrlega af fjöllum, hafði ekki hugmynd um þetta.

Ég hef líka lesið, eins og kannski fleiri þingmenn, í Fréttablaðinu að það var einmitt fyrst og fremst ætlunin að auka tekjurnar með hækkun vörugjalda, það var talað um sérstakan skatt af ökutækjum, eldsneyti, áfengi og tóbaki og einnig er til skoðunar að leggja á hátekjuskatt. Við megum væntanlega þakka fyrir að við skulum alla vega fá þessar upplýsingar í fjölmiðlum.

Það var líka nefnt í fjölmiðlum að ríkisstjórnin ætlar að miða við að heildarskattheimtan verði ekki hærri en hlutfall af landsframleiðslu eins og hún var 2005. Við verðum því væntanlega að setjast niður og reikna út hvað verið er að tala um því að ekki virðist vera hægt að fá þessar upplýsingar í þinginu.

Það kemur síðan fram þegar við lesum greinargerðina með frumvarpinu að talað er um 0,5% hækkun á vísitölu neysluverðs. Það kom heldur ekki fram í orðum hæstv. ráðherra heldur sagði hún að við hefðum getað lesið það í frumvarpstextanum sem við vorum akkúrat að fá í hendurnar. (Gripið fram í.) Þó að við lesum hratt er varla hægt að reikna með að við komumst í gegnum þetta á einum, tveimur eða þremur mínútum áður en umræðan byrjaði.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs verði bundin við 4%. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórnin grípi til þeirra aðgerða að takmarka hækkun á vísitölu neysluverðs, sérstaklega í ljósi þess að ríkið er orðið meiri háttar hagsmunaaðili við að viðhalda verðbólgu í landinu. Ríkið er orðið stóreigandi að verðtryggðum eignum. Hækkun á vörugjöldum mun því leiða til 0,5% hækkunar á vísitölu neysluverðs eða, eins og kom hér fram, 8–9 þús. milljarða af lánum almennings í landinu. Hér erum við ekki að tala um lán fyrirtækja heldur lán almennings.

Ég hef áður nefnt hér í ræðustóli að mér hefur fundist þingmenn Vinstri grænna vera nánast eins og umskiptingar í þinginu. Ég ætla að fá að nefna tvö dæmi, með leyfi forseta.

Þann 17. nóvember 2008 lögðu þingmenn Vinstri grænna og nú sitja þrír þeirra í ríkisstjórn, hæstv. ráðherrar Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Katrín Jakobsdóttir, til að lögum um vexti og verðtryggingu yrði breytt á þann máta að verðtryggð lán samkvæmt 14. gr. laganna skyldu ekki bera hærri vexti en 2%. Það var talið að þetta væri mikið réttlætismál miðað við þær aðstæður sem voru í samfélaginu, óðaverðbólga og háir vextir, og bent var á að sá sem tekur verðtryggt lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu, því hækki verðlagið þá hækki lánin.

Annað dæmi um umskipti hv. þingmanna Vinstri grænna er frumvarp sem flutt var mánuði seinna, nákvæmlega mánuði seinna. Þar var lagt til að bæta við ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. laga þessara og ákvæði lánasamninga verðtryggðra fasteignaveðlána til íbúðakaupa um að lánin skuli verðtryggð á grundvelli vísitölu neysluverðs skal hækkun vísitölunnar til verðtryggingar 1. janúar 2009 – 31. desember 2009 að hámarki vera í samræmi við þær forsendur sem fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 byggðist á þegar það var lagt fram 1. október 2008, þ.e. 5,7%.

Í framhaldi af gildistöku ákvæðis þessa skal ríkisstjórnin taka upp viðræður við þær lánastofnanir sem í hlut eiga um nánari útfærslu ákvæðisins, m.a. með hvaða hætti þeir aðilar sem ákvæðið tekur til mæti sameiginlega þeim áhrifum sem aðgerð þessi hefur í för með sér.“

Þetta frumvarp fluttu þingmenn Vinstri grænna, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem hefur að vísu yfirgefið okkur, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem situr hér enn þá sem formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem er nú formaður utanríkismálanefndar, og hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, þann 19. desember 2008.

Við hljótum því að gera þá kröfu að ríkisstjórnin kynni ráðstafanir sínar til að koma í veg fyrir þessa víxlverkun, þennan vítahring kaupmáttarskerðingar og hækkun á höfuðstóli lána. Ef ekki, þá munum við áfram búa þar sem erlendur gestur okkar, bandarískur prófessor sem heitir Michael Hudson, talaði um að við værum búin að búa til, í paradís lánardrottna á Íslandi. Hann sagði í grein sem birtist í Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

„Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með ,,ódýrum peningum“. Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða. Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.“

Ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí frá því að halda niðri verðbólgunni í landinu. Hún getur ekki verið stikkfrí frá því að gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín og þeirra sem eru með litlar eða meðaltekjur, almenningur í landinu. Og ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí frá því að gæta hagsmuna íslenskra heimila og fyrirtækja í landinu.