137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það að hv. þm. Helgi Hjörvar ráði sér svo sannarlega sjálfur og hann er ekkert hallærislegur að mínu mati. En samt sem áður skrifaði flokkurinn sem hv. þingmaður er í undir stjórnaryfirlýsingu í samstarfi við Vinstri græna. Þar kemur fram að ætlunin sé að láta Seðlabanka Íslands skoða verðtrygginguna og hvernig hægt sé að afnema verðtrygginguna.

Ég geri ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands ætli að skoða verðtrygginguna og áhrif hennar á íslensk heimili og íslenskt samfélag þegar hann hefur reiknað sig fram til þess að staða íslenskra heimila sé nú ekkert svo slæm, að neikvætt eigið fé sé ekkert svo bagalegt fyrir heimilin og það að tugi þúsunda heimila eigi ekkert sé kannski bara allt í lagi, miðað við þau skilaboð sem maður hefur fengið frá Seðlabanka Íslands á undanförnum missirum.

En Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, ásamt fjölda samfylkingarmanna lagði ár eftir ár fram tillögu á þingi um að stofna nefnd á vegum viðskiptaráðherra um afnám verðtryggingar. Hvað gerðist síðan þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn? Það gerðist nefnilega nákvæmlega ekki neitt varðandi þetta mál. Það var ekki fyrr en við hrun bankanna í október að sett var á fót nefnd sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið.

Ég spyr því hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar: Hvað hyggst hann gera til þess að klippa á þessa víxlverkun, á áhrif verðtryggingarinnar í íslensku samfélagi? Telur hann það koma til greina að setja hámark á verðtryggingu eða hreinlega að banna hana?