137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

tilraun með erfðabreyttar lífverur.

[10:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hennar fyrirspurn að því er varðar umsókn ORF Líftækni um leyfi og heimild til útiræktunar á sértækum próteinum í byggi í Gunnarsholti. Það er hárrétt sem hún reifaði hér að þetta fyrirtæki er í fremstu röð og að umsóknin fékk jákvæða umfjöllun Náttúrufræðistofnunar og þeirrar nefndar sem fjallaði um umsóknina sérstaklega.

Að því er varðar það frumvarp sem ég talaði fyrir hér í þinginu þá held ég að það sé nú ekki rétt eftir haft að það hafi verið leitað afbrigða til þess að koma málinu á dagskrá heldur var það sett á dagskrá og var eitt af fyrstu málunum hér. Reyndar vorum við komin í skömm með þá lagabreytingu sem þar lá fyrir gagnvart EES-samningnum og var komið að því. Raunar hafði verið mælt fyrir þessu máli á vetrarþingi, á síðasta þingi, og það hafði ekki náð fram að ganga þannig að ekki var um það að ræða að það hefði verið sett hér á dagskrá vegna einhverra ytri aðstæðna.

Það sem það frumvarp hins vegar felur í sér fyrst og fremst er aukið samráð við almenning og aukið gagnsæi, meiri umræða um málið. Hvort umhverfisráðherra hafi beitt sér gagnvart Umhverfisstofnun í málinu þá er svarið að svo er ekki. Umhverfisstofnun hefur málið á sínu borði. Málið er ekki á borði umhverfisráðherra. Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun sem hefur þessa umsókn með höndum en hefur í ljósi stöðunnar tekið ákvörðun um að framlengja frestinn til að taka við athugasemdum og ég held að það sé í samræmi við góða stjórnsýslu.