137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú. Við erum farin að endurtaka okkur líklega dálítið mikið í þessari umræðu, en þetta snýst líka um í hvaða átt er verið að fara. En vissulega, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson bendir á, er sú átt sem verið er að horfa í nokkuð ljós. En fyrsta skrefið er í tillögu stjórnarandstöðunnar. Tillaga stjórnarinnar gerir ráð fyrir því að skref tvö sé tekið fyrst og svo fyrra skrefið. En látum það vera.

Aðalatriðið er að til þess að geta rætt tillögu stjórnarandstöðunnar af einhverri alvöru verðum við að líta svo á málið að gert sé ráð fyrir því að hún fari alla leið. Að menn byrji á að ganga frá því að þeir ætli að fara í þetta ferli sem fjallað er um í greinargerð með tillögu stjórnarandstöðuflokkanna, þar á meðal hvaða ráðstafanir þurfi að gera varðandi stjórnarskrá. Ætlar hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar að framkvæma allt þetta sem lýst er í greinargerð utanríkismálanefndar áður en kemur að því að greiða atkvæði um tillögu stjórnarinnar?