137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

orkufrekur iðnaður.

[13:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Atvinnuleysi er eitthvert versta böl sem þjóðin býr við og er án efa alvarlegasta ógnin við stöðu margra heimila. Sennilega er atvinnuleysi stærsta vandamálið sem okkur hrjáir með þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur á stöðu margra heimila. Og ef eitthvað eitt getur hjálpað mest er það að við náum eflingu í atvinnulífið, að við náum að skapa fleiri atvinnutækifæri og náum að ráðast á þessa alvarlegu ógn.

Við höfum þurft að horfa fram á glötuð tækifæri á undanförnum árum, glötuð tækifæri sem hefðu skapað hér mikil verðmæti, mikla atvinnu. Þau tækifæri hafa fyrst og fremst glatast vegna óvissu, vegna aðgerðaleysis og vegna misvísandi skilaboða. Þar er ég að vitna í tækifæri eins og verksmiðjubyggingu í Þorlákshöfn og stækkun álversins í Straumsvík sem hefði fært okkur mikla atvinnustarfsemi og við værum ekki að horfa upp á það atvinnuleysi sem við búum við í dag ef þessi verkefni hefðu fengið eðlilega meðferð og væru í gangi nú.

Hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra talaði um að í iðnaðarráðuneytinu væri mikil undirbúningsvinna í gangi við að leita tækifæra og ræða við aðila sem vildu koma með starfsemi til Íslands. Núverandi hæstv. iðnaðarráðherra sagði í ræðustóli Alþingis fyrir ekki löngu síðan að aldrei fyrr hefðu verið eins mörg verkefni til skoðunar í iðnaðarráðuneytinu. Aldrei fyrr hefði verið eins mikið að gera þar við að ræða við aðila sem vildu koma með starfsemi til Íslands.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig viðræður við þessi fyrirtæki ganga. Hvenær megum við vænta þess (Forseti hringir.) að fyrstu verkefnin líti dagsins ljós og hver eru svör til þeirra fyrirtækja sem eru að leita eftir því að koma með orkufrekan iðnað til Íslands?