137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

orkufrekur iðnaður.

[14:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Auðvitað er hv. þingmaður svekktur yfir því að þessi ríkisstjórn skuli vera að gera það sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (Gripið fram í.) hafði aldrei dug til að gera, sem var að setja heildarramma utan um erlenda fjárfestingu. (Gripið fram í.) Það er það sem við erum að gera.

Virðulegi forseti. Hér er ég spurð beint að því … (Gripið fram í.) Enda er þetta afrakstur þess að við erum núna langt komin með að byggja þá heildarlöggjöf sem við ætlum að fara í.

Virðulegi forseti. Ég er spurð beinna spurninga sem hv. þingmenn virðast ekki vilja fá svar við. Því er haldið fram hér af hv. þingmanni að það standi á einhverju varðandi Helguvík í iðnaðarráðuneytinu og líka félögum hans í Sjálfstæðisflokknum í fjölmiðlum. Það er auðvitað alrangt og það kom fram við meðferð málsins í þinginu í vetur hjá hv. iðnaðarnefnd að ESA þyrfti tíma að öllum líkindum fram á sumarið. Hér er því allt á áætlun til að fara (Forseti hringir.) yfir það hvort samningurinn samræmist þeim reglum.

Virðulegi forseti. Það er heilmikið að gerast hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum. (Gripið fram í: Nei.) Á það skal bent að aðgerðirnar eru bæði stórar og smáar. (Forseti hringir.) Ég geri fastlega ráð fyrir og vonast til þess og mun róa að því öllum árum að í sumar komi hingað erlend öflug fjárfesting. (Gripið fram í.)