137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Trúverðug áætlun um aðlögun ríkisfjármála að gjörbreyttum aðstæðum er eitt mikilvægasta hagsmunamál heimilanna auk atvinnustigsins. Ríkisstjórnin vinnur því að tillögum til útgjaldalækkunar og tekjuöflunar ríkissjóðs og skuldir ríkisins eru einnig skuldir heimilanna í landinu. Lánshæfismat íslenska ríkisins byggir á trúverðugri áætlun í ríkisfjármálum og hefur því mikil áhrif á greiðslubyrði ríkissjóðs og þar með möguleika til að veita opinbera þjónustu og beinar greiðslur til heimilanna.

Á sama tíma og stjórnvöld vega og meta þá kosti sem eru í stöðunni fara fjölskyldur landsins yfir fjármál sín og leita allra leiða til að draga úr kostnaði til að geta greitt af lánum sínum. Verðtrygging af húsnæðislánum er nánast séríslenskt fyrirbæri vegna óstöðugleika í efnahagslífinu. Í öðrum löndum hefur efnahagskreppan þau áhrif að á sama tíma og tekjur heimilanna dragast saman lækka vextir af húsnæðislánum þegar seðlabankar lækka vexti til að örva hagkerfin. Á Íslandi erum við ekki eingöngu að fást við hrun fjármálakerfisins og djúpa efnahagslægð. Gjaldmiðillinn hrundi um leið og bankakerfið og verðbólga hefur því verið mun meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Áhrifin verða þau að húsnæðisskuldir hækka vegna verðbótaþáttarins.

Frú forseti. Óstöðugt verðlag hefur lengst af verið mikið böl fyrir íslensk heimili. Verðtryggingin er leið til að draga úr sveiflum á greiðslubyrði skulda heimilanna og í stað breytilegra vaxta á húsnæði erum við með fasta vexti og verðtryggingu. Þannig auðveldar verðtryggingin heimilunum að komast í gegnum tímabil efnahagslægða því að aukin greiðslubyrði greiðist jafnt á eftirstöðvar lánsins en kemur ekki fram í vaxtastiginu sem væri nú hátt í 20%.

Á síðustu mánuðum hefur verið gripið til margra aðgerða til að lækka greiðslubyrði heimilanna og einnig lögfest úrræði fyrir þær fjölskyldur sem ekki sjá fram úr efnahagsvandræðum sínum eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra. Meiri hluti heimilanna í landinu getur staðið undir greiðslubyrði sinni óháð því hver eiginfjárstaða í húsnæði er og erlendar rannsóknir sýna að eiginfjárstaða í húsnæði hefur ekki áhrif á afkomu fólks svo lengi sem það heldur atvinnu sinni.

Við göngum nú í gegnum tímabundna efnahagslægð. Hún er vissulega djúp og það mun reyna mjög á stjórnvöld og landsmenn alla á næstu árum. En þegar tekjur fara að aukast mun íbúðaverð og eiginfjárhlutfall fara hækkandi.

Virðulegi forseti. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar byggir á jafnvægi og velferð. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að flýta endurreisn Íslands og tryggja að hún verði á varanlegum grunni. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er að okkar mati eitt mikilvægasta skrefið sem við verðum að stíga nú í sumar. Við teljum það efnahagslega nauðsyn. Samhliða aðlögunarferlinu að evru munum við fylgja áætlun um endurreisn íslensks efnahags.

Okkar mat er það að til að hér verði efnahagsstöðugleiki til framtíðar verðum við að taka upp evru. Stöðugt verðlag og gengi er eitt af mikilvægustu hagsmunum heimila og fyrirtækja. Fáir vita það betur en Íslendingar. Gengisstöðugleiki er jafnframt mikilvæg forsenda þess að innlendir jafnt sem erlendir aðilar vilji fjárfesta hér á landi. Ef fyrirtækin hafa ekki trú á íslensku hagkerfi mun draga úr verðmætasköpun. Þá getum við ekki tryggt gott velferðarkerfi og fjölbreytt atvinnutækifæri. Þá mun verðtryggingin verða förunautur okkar til framtíðar. Þess vegna leggur Samfylkingin svo ríka áherslu á aðild að Evrópusambandinu því að hún er eitt (Forseti hringir.) af mikilvægustu hagsmunamálum íslenskra heimila. (Forseti hringir.)