137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir tveim tímum olli mér miklum vonbrigðum, og ekki bara vonbrigðum heldur hryggð. Ég tel að stýrivextir ættu að lækka niður í 4–5% miðað við þá verðbólgu sem við sjáum fram á og miðað við stöðu atvinnulífsins.

Það sem menn virðast gleyma í Seðlabankanum er að þessir stýrivextir þýða auknar vaxtagreiðslur af jöklabréfunum og afleiðingum þeirra, sennilega um 60 milljarða á ári sem við þurfum að kaupa gjaldeyri fyrir. Um leið og það er gert veikist krónan enn frekar. Um leið og það gerist vex verðbólgan. Ég er ekki viss um að Seðlabankinn hafi hugsað dæmið alveg til enda og séð alla þætti.

Á sama tíma og Seðlabankinn fikrar sig svona hægt og rólega niður hafa Libor-vextir á evru lækkað úr 4% niður í 1%, og núna undir 1%. Vaxtamunurinn við útlönd er ekkert að minnka.

Fyrirtækin í landinu eru í algjöru frosti út af þessu háa vaxtastigi. Það er ekki verið að framkvæma neitt. Það er ekki verið að ráða fólk í vinnu og atvinnuleysið vex. Kostnaður ríkissjóðs vex vegna atvinnuleysisbóta og þess að skatttekjur þeirra sem voru með vinnu falla niður. Kostnaður ríkisins er á öllum endum af þessari ákvörðun, bæði vegna þess að vextir af jöklabréfunum eru borgaðir úr ríkissjóði — af því að hann á alla bankana — og svo borgar hann fyrir aukið atvinnuleysi fyrir utan það að kjarasamningar eru í uppnámi. Atvinnuleysi er hörmung og mjög slæmur kostur fyrir þá sem lenda í því. Ég er eiginlega harmi sleginn yfir þeirri ákvörðun Seðlabankans að halda stýrivöxtunum svona geysilega háum í þeirri stöðu sem við búum við í dag.