137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[13:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta frumvarp til lokafjárlaga fyrir 2007 er orðið seint á ferðinni en það á sér þær skýringar að það var lagt hér fram sl. vetur. Ekki hafði unnist tími til að mæla fyrir því fyrr en eftir stjórnarskipti, ef ég man rétt gerði ég það síðla febrúar eða í byrjun mars og síðan vannst Alþingi ekki tími til að afgreiða það í önnunum í lok mars og byrjun apríl fyrir kosningar, því er það endurflutt hér einu sinni enn.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga er mjög mikilvæg og að styrkja rammann sem þar er unnið eftir. Það hefur heilmikið verið skoðað nú, sérstaklega í ljósi aðstæðna, og m.a. liggur fyrir skýrsla sem sérfræðihópur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vann og ég þykist vita að fjárlaganefnd hafi fengið kynningu á. Sömuleiðis var haldinn kynningarfundur fyrir flesta ráðherra ríkisstjórnarinnar sem komu á óformlegan fund og fóru yfir þetta mál og ætlunin er að fara í ýmsar þær breytingar sem þar eru lagðar til og ég held að þær séu flestar ef ekki allar til bóta.

Það sem menn hafa gert að undanförnu að því er mér virðist er að menn hafa reynt að vera með ársfjórðungslegt mat og kynningu á stöðunni eins og þessi niðurstaða um útgjöld fyrsta ársfjórðunginn gefur til kynna. Í beinu framhaldi af því að hún lá fyrir var hún kynnt í ríkisstjórn, bréf send til ráðuneyta og allra þeirra aðila sem höfðu farið út fyrir mörkin, sem og gögnin send til fjárlaganefndar. Ég fagna þátttöku fjárlaganefndar í því að skoða slík gögn og veita aðhald í þeim efnum.

Hvað varðar aðgang nefndarinnar að nákvæmari og tímanlegri gögnum úr þróun ríkisbúskaparins eða ríkisbókhaldinu er alveg sjálfsagt að taka það til skoðunar. Reyndar hafa mér verið kynntar hugmyndir um sérstök kerfi sem notuð séu sums staðar í stofnunum eða fyrirtækjum sem hugsanlega mætti taka upp (Forseti hringir.) og væru þannig að þau veittu sjálfkrafa aðgang að tilteknum hlutum.