137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[14:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að sumar eignir voru færðar yfir á núlli vegna þess að menn reiknuðu með að engar líkur væru á að ná í þær. Aðrar voru færðar yfir á næstum 100% af því þær voru eiginlega alveg öruggar. Verðmæti lánasafnsins liggur þarna á milli. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er það að enginn veit neitt um þetta. Menn eru að gefa sér að með því að lækka allar skuldir einstaklinga um 20% sé hægt að spara í öllum pakkanum um 25%. Það er bara ekki raunhæft, alls ekki.

Ég geri ráð fyrir því að ef kröfuhafarnir mundu verða tilbúnir til að dæla inn peningum í íslenskt atvinnulíf til að fá meira greitt og lánin yrðu verðmeiri þá mundu þeir örugglega gera það á annan hátt en að lækka skuldir, sem virkar mjög seigfljótandi inn í atvinnulífið eins og ég gat um. Það gerist bara þegar menn borga 20% minna af afborgun á hverju ári. Það er miklu virkara, miklu miklu virkara, frú forseti, að láta atvinnulausa fá þetta í staðinn fyrir að vera á lágum atvinnuleysisbótum. Það yrði miklu virkara.

En eins og ég gat um, ég hef ekki séð neinn sem á 200 milljarða. Það er kannski vandinn. Þess vegna búum við við þetta atvinnuleysi. Ég vil að menn einbeiti sér að því að reyna að koma atvinnuleysinu í núll með öllum ráðum. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að fara að taka á þeim vandamálum sem t.d. lokun bankanna þýðir fyrir atvinnulífið, (Gripið fram í.) svo að atvinnulífið fari í gang, færri þiggi atvinnuleysisbætur og fleiri borgi skatta. Þá lagast staða ríkissjóðs.