137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún segir á einum stað að það geti verið hagur kröfuhafanna að setja atvinnulífið í gang og ég tek alveg undir það. Það er alveg hárrétt. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt fyrir kröfuhafana, sem eiga svo mikið undir því að heilt þjóðfélag gangi, að setja það í gang. Þeir hafa meira að segja rætt um það í mín eyru sumir hverjir að þeir vilji jafnvel að Ísland fái aftur AAA-mat, „triple-A“, eins og það hafði.

En það er ekki sama hvernig það er gert og að lækka skuldir ákveðins hóps manna á Íslandi er ekki endilega besta leiðin til þess að setja atvinnulífið í gang vegna þess að það kemur mjög seint fram í neyslu eða öðru slíku því að fyrst borga menn 20% minna. Segjum að menn eigi að borga 100 þús. kall af íbúðarláni sínu, þá borga þeir 80 þús. kall fyrsta mánuðinn en hafa 20 þús. kr. til ráðstöfunar. Það eru nú öll ósköpin.

Þetta gerist mjög hægvirkt á mörgum árum. Það væri miklu skynsamlegra ef menn hefðu svo mikla peninga, t.d. 200 milljarða. Kröfuhafarnir vildu t.d. setja 200 milljarða í íslenskt atvinnulíf til að setja það í gang, til að grípa á vandanum, þ.e. á atvinnuleysinu, þar sem hann er. Ráða þá sem eru atvinnulausir á 500 þús. kr. á mánuði við að rannsaka bankana eða eitthvað slíkt og keyra þannig atvinnulífið af stað. Það væri mjög virk aðgerð til að leysa mestan vandann sem við sjáum fyrir okkur en hann er vegna atvinnuleysis. Það er hægt að ráða alla sem eru á atvinnuleysisskrá í tvö ár með 500 þús. kall á mánuði fyrir þessa fjármuni. Ef kröfuhafarnir hefðu þá hugsjón (Gripið fram í.) og þá hugljómun mundu þeir fara þessa leið miklu frekar en að lækka skuldir.