137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja það sem einn nýliðanna á þingi að maður er eiginlega að verða algerlega agndofa. Það sem búið er að gera frá því að þing var boðað saman og við tókum umræðuna um daginn í sambandi við hækkunina á olíugjaldinu og brennivíni og tóbaki eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og eru viðhöfð núna. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst það afskaplega sérkennilegt að þegar menn fara í verkefni eins og fram undan er, að skrifa undir samkomulag út af Icesave-reikningunum, þá þarf enginn að segja mér það að sú nefnd sem er með það skrifi undir í umboði ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að sá samningur verði samþykktur á hinu háa Alþingi. Ég trúi því ekki að menn skrifi undir hann og ef hann yrði síðan felldur hér er varla hægt að taka mark á svoleiðis vinnubrögðum hér eftir. Ég segi enn og aftur, frú forseti: Ég hvet þig til þess að verða við beiðni okkar þingmanna um að slíta fundi og boða til annars.