137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá skýrslu sem hér var flutt. Stjórnvöld hafa sannarlega staðið frammi fyrir miklum vanda. Um það eru allir sammála. Það hafa riðið yfir íslenskt samfélag gríðarleg áföll undanfarna mánuði og við erum enn í óðaönn að greiða úr þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem við er að fást. Það skyldi enginn gera lítið úr vandanum. Þó að við hefðum í raun ekki neitt eitt vandamál annað en það sem við ræðum nú væri vandinn samt sem áður ærinn.

Deilan sem við erum að fjalla um hér í dag snýst um innstæðureikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Nú liggja samningar við þarlend stjórnvöld fyrir. Meginefni samninganna hefur verið kynnt og á næstu dögum mun þingið taka afstöðu til þeirrar ríkisábyrgðar sem hér var vikið að í máli hæstv. fjármálaráðherra.

Ég verð að segja að ég hefði kunnað betur við það ef hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki reynt að setja þetta mál allt í það ljós að sá samningur sem hér liggur fyrir sé svo miklu mun betri en sá sem var í burðarliðnum heldur hefði bara haldið sig við þá línu sem hann gerði undir lok ræðu sinnar og sagt að við ættum enga aðra kosti, að við ættum engan annan kost en að skrifa undir samning. Það held ég að hefði verið heiðarlegri og raunsærri nálgun á viðfangsefnið en sú sem hann bauð hér upp á.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti sem fyrrverandi formaður í utanríkismálanefnd og núverandi nefndarmaður þar að mér misbýður gróflega þegar hingað er stigið upp og sveiflað skjali sem nefndinni hefur verið neitað um aðgang að í allan vetur til rökstuðnings þeirri niðurstöðu sem hæstv. fjármálaráðherra er hér að reyna að kynna. Auðvitað er manni gróflega misboðið þegar þessu skjali sem nefndin hefur ekki fengið að sjá í allan vetur er sveiflað framan í okkur sem meginrökstuðningnum fyrir því að hann sé hér að kynna góða niðurstöðu, miklu betri en þá sem var í uppsiglingu. Þetta er ekki boðlegt þinginu.

Það er heldur ekki boðleg skýring að sá samningur sem hann er þar að vísa til hafi þannig bundið hendur stjórnvalda, að ekki hafi verið um neitt annað að ræða en að gefast upp á endanum vegna þess að hin sameiginlegu viðmið sem vitnað var til eru sjálf til vitnis um það að þau stjórnvöld sem við vorum að ræða um höfðu horfið frá þessu minnisblaði, höfðu horfið frá því að gera kröfu um þetta. Um hvað voru annars Hollendingar að ræða við okkur í allan vetur ef tekist hafði samkomulag strax á þeim tíma sem minnisblaðið var gert? Auðvitað er þetta ekki svona. Hin sameiginlegu viðmið sem voru grundvöllur þeirra viðræðna sem þingið samþykkti að ættu sér stað eru eini mælikvarðinn sem við eigum að nota á það hvort hér hafi tekist samningur innan þess ramma sem þingið lagði upp með. Hvað segir í hinum sameiginlegu viðmiðum? Jú, ríkt tillit skal tekið til aðstæðna á Íslandi, hinna óvenjuerfiðu aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Á endanum er það eini mælikvarðinn sem við eigum að leggja á það hvort þeir samningar sem út úr þessum viðræðum hafa komið séu ásættanlegir eða ekki.

Lengst af leið manni eins og hér væri staddur allt annar maður en sá sem tók þátt í umræðum um þetta mál í vetur, allt annar maður en sá þingmaður sem þá var, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, nefndarmaður í utanríkismálanefnd sem skilaði sérstöku nefndaráliti þegar nefndin afgreiddi þingsályktunartillöguna og greiddi meira að segja atkvæði gegn því að farið væri yfir höfuð í þessar viðræður, lagði fram sérstakt lögfræðiálit um að það væri engin lagaleg skuldbinding til staðar, skrifaði lærðar greinar um að enn væri hægt að bjarga okkur út úr þessum vanda rétt um viku áður en hann tók sæti í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það dugar honum auðvitað ekki, þessum þáverandi þingmanni í utanríkismálanefnd, hæstv. fjármálaráðherra nú, að koma hingað upp og segja: „Hendur mínar voru bundnar. Þetta er allt sem ég gat gert.“

Ég hefði viljað heyra miklu nánar um það hvaða vanda við stæðum frammi fyrir ef ekki yrði gengið til samninga vegna þess að samningurinn er á engan hátt viðunandi sem niðurstaða fyrir okkur þannig að hægt sé að segja með nokkrum rökum að ríkt tillit hafi verið tekið til aðstæðna á Íslandi eins og lagt var upp með. Það er af nógu að taka til að sýna fram á að svo hefur ekki verið gert.

Í fyrsta lagi eru það vaxtakjörin. Sagt er að hér sé um lága vexti að ræða. Gott og vel. Við munum ræða það í nefndinni þegar þingmálið kemur fram. Fáum álit sérfræðinga á því hvaða föstu langtímavexti sé raunhæft að gera sér væntingar um í samningum eins og hér er um að ræða. En höfum þá tvennt í huga. Í fyrsta lagi þetta: Lánasafn Landsbankans er í dag með breytilegum vöxtum og þess vegna er það áhætta í sjálfu sér að semja um langtíma fasta vexti. Miðað við þá breytilegu vexti sem lánasafn Landsbankans er með í dag erum við væntanlega að taka á okkur um það bil 2% vaxtamun á ári allan lánstímann. Takið eftir því. Það er gríðarlegur vaxtamunur jafnvel þó að við gæfum okkur að Landsbankaeignasafnið væri að höfuðstóli til jafnhátt og öll skuldbindingin. Þar fyrir utan eigum við að sjálfsögðu ekki að láta sem svo að hérna séum við í einhverjum viðskiptasamningum við þau lönd sem um er að ræða. Þetta eru ekki samningar um nein venjuleg viðskipti.

Ég geri miklar athugasemdir við að menn skuli stíga hér upp, fara yfir þetta mál, reifa allar hliðar þess án þess að hafa fyrir því að minnast á að grunnur þessa máls er ekki sá að hér voru bankarnir einkavæddir. Grunnurinn er sá að innstæðutryggingakerfi Evrópska efnahagssvæðisins er ónýtt. Það er handónýtt. Það rís ekki undir því hlutverki sem það var smíðað til að gegna og það er langt frá því. Það er líka skýringin á því að við vorum einir í okkar afstöðu á móti ríkjunum 27 sem vildu hafa aðra lagalega niðurstöðu þegar kemur að því að túlka reglurnar vegna þess að þeir höfðu allir eina og sömu hagsmunina á móti okkar hagsmunum. Það er ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin í dag til að ræða þetta alvarlega mál.

Það sem er líka að í þessum samningi er að óvissan í samningnum er öll á okkar reikning. Hún er öll á okkar reikning. Öll óvissa um það hvernig vaxtamálin þróast á eignasafninu, öll óvissan um það hvað innheimtist upp í eignirnar, öll óvissan um það hvort neyðarlögin standast yfir höfuð. Mér líkar auðvitað ekki að koma hingað upp og velta upp þeim möguleika að lög sem ég tók þátt í að afgreiða muni mögulega ekki standast en við hljótum að þurfa að horfast í augu við þann veruleika að það verður reynt að hnekkja neyðarlögunum. Það er ekkert tillit tekið til þessa í þeim samningum sem við erum hér með til meðhöndlunar.

Það hefði þurft að setja þak á heildarskuldbindinguna. Við hljótum að vera sammála um það öll og jafnvel viðsemjendur okkar að með því að setja þak á þá heildarskuldbindingu sem Íslandi mundi í framtíðinni þurfa að rísa undir væri verið að taka tillit til aðstæðna á Íslandi. Þá væri verið að setja inn tryggingu sem við gætum búið við og þyrftum þess vegna ekki að óttast til lengri tíma að kæmi í bakið á okkur.

Það er mikil óvissa um lánshæfismatið. Greiðslutíminn í þessu láni er ekki sérstaklega langur og auðvitað er það þannig að öll gögn sem þingið hefur haft um þetta mál hafa verið í algjöru skötulíki og samráðið nánast ekki neitt.

Ég segi einfaldlega við hæstv. fjármálaráðherra: Ég ætlast til þess þegar þetta þingmál verður rætt hér í þinginu að menn komi hreint og beint fram. Það munum við líka gera. Við munum leggja raunhæfa mælikvarða á þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir og ég vil að menn ræði þetta mál þá á þeim forsendum að mögulega höfum við ekki neina aðra stöðu og þá þarf allt að koma fram: Hverju er Evrópusambandið að hóta? Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að segja? Hverju eru Bretarnir að hóta okkur? Hversu langt hafa þeir gengið í því að fá einstökum köflum Evrópska efnahagssvæðisins kippt úr sambandi og hversu nálægt erum við því að þessi staða komi upp? Það er á þeim forsendum sem menn eiga að taka þessa umræðu hér en ekki að reyna að slá sér á brjóst og halda því fram að þeir hafi bjargað málinu fyrir horn, (Forseti hringir.) að fyrri stjórnvöld hafi verið á leiðinni að gera einhverja samninga sem aldrei stóð til að gera.