137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:41]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur kemur hv. þingmaður með áhugaverðar grundvallarspurningar sem væri gaman að gefa sér betri tíma til að skoða en hér er hægt. Ég ætla ekki að reyna að skera úr um það hér hvort eftirlitsstofnanir hafi hugsanlega brugðist og jafnvel það illa að hægt sé að óska eftir skaðabótum frá þeim. Það er ekki hlutverk viðskiptaráðherra að skera úr um það. Það væri auðvitað dómstóla að skera úr um það ef réttarágreiningur kæmi upp um skaðabætur eða annað slíkt.

Hitt veit ég og við vitum öll að það er verið að skoða þessi mál á ýmsum vettvangi, sérstaklega hjá rannsóknarnefnd Alþingis sem væntanlega fjallar ekki um skaðabætur en fjallar í víðara samhengi um ábyrgð á því sem fór úrskeiðis síðustu ár. Þá verður væntanlega m.a. vikið sérstaklega að því, eiginlega óhjákvæmilega, hvernig eftirlitsstofnanir stóðu sig og þá verður hægt að draga ályktanir af því um ábyrgð þeirra og hvernig við getum betur komið málum fyrir í framtíðinni til að eiga ekki á hættu að lenda í sambærilegri stöðu eftir einhver ár eða áratugi.